139. löggjafarþing — 164. fundur,  15. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[20:41]
Horfa

Árni Johnsen (S):

Virðulegi forseti. Í Biblíunni segir að menn eigi að vera saklausir en þar segir líka að menn eigi að vera slægir. Allt er þetta líklega lífsins gangur eins og komið hefur verið inn á hér fyrr í kvöld. Það frumvarp sem liggur fyrir til umræðu elur á slægð og óhreinlyndi, á klíkuskap og valdbeitingu, öndvert við það sem við ætlumst til í fjölskylduvænu samfélagi eins og við viljum væntanlega að sé á Íslandi. Einhvern tímann var sá draumur ugglaust úti í Brussel en hann er búinn að vera. Þannig er þetta eins og þetta blasir við í einföldum raunveruleika.

Mannskepnan — og það er tilviljun að um leið og ég segi þetta lít ég á hv. þm. Kristján Þór Júlíusson — er líklega flóknasta skepna jarðarinnar. (Gripið fram í: Þú hefur aldrei skilið leiðbeiningar.) Við verðum að horfast í augu við það í okkar daglega lífi, en stjórnun sjálfstæðs lands sem hefur metnað þarf að lúta almennum ásættanlegum leikreglum, ekki geðþótta einstaklings, ekki einveldi hins menntaða eða þess sem er lotinn af reynslu því að það byggist á mismunandi forsendum. Það verða að vera leikreglur sem eru almennt ásættanlegar.

Hér er verið að nauðga í gegn frumvarpi sem er ekki sátt um og skiptir miklu máli fyrir almennt líf og almennan andardrátt íslensku þjóðarinnar, almenna leikgleði, vonir og væntingar. Það hlýtur að vera viðmiðun okkar að við viljum hafa sólstafi til hafs og fjalla en ekki skuggabaldra.

Það er nú svo og er ekki illa meint, virðulegi forseti, að ferill hæstv. forsætisráðherra Jóhönnu Sigurðardóttur er talsvert stráður offorsi í athöfnum og skoðunum og það eigum við að þola, ekki síst í veiðimannasamfélagi, oft með yfirgangi og án tillitssemi en oftast með leiðindum og það er verst því að það er skelfilegt að lifa lífi sem er hundleiðinlegt. Þegar ríkisstjórn Íslands gengur fram fyrir skjöldu, til að mynda með frumvarpi eins og hér er verið að slugsa með, veldur það depurð og þreytu í fólki. Við eigum ekki að standa fyrir slíku, við eigum að standa fyrir hinu, bjartsýni, von, væntumþykju, áræði, dugnaði og þori. (Gripið fram í: Og allt um mig.) Nákvæmlega, hv. þingmaður, ég horfði á þig og sagði þetta þess vegna.

Það er ótrúlegt hvernig hæstv. forsætisráðherra hefur leitt margt fólk með sér eins og í blindri trú í þröngan hóp innan Alþingis í þessar ógöngur sem málaflækjan hefur sýnt, virðulegi forseti.

Ég hef sagt það oftar en einu sinni á undanförnum árum að hv. þm. Atli Gíslason er að mínu mati einn af bestu lögmönnum Íslands og ég held að það komi æ betur í ljós að svo er. Ræða hans í þessari umræðu í fyrrinótt var mjög mögnuð, skilvirk og skynsamleg. Hann dró fram kjarna málsins sem er sá að það er vaðið hér áfram í villu og svíma með mál sem er dúndrandi ósætti um, eitt af þessum málum í okkar samfélagi sem verður að vera sátt um. Það er skylda stjórnarsinna að tryggja að það sé sátt um það. Ef þarf að taka meiri tíma í þær umræður verður að taka þann tíma, ekki að sparka með klaufum og hornum í allar áttir og segja: Komið þið bara, við ráðum. Það er bara ekki þannig. Það er ekki hugsað, ekki einu sinni til einnar nætur.

Hv. þm. Atli Gíslason benti á það í ræðu sinni að hæstv. forsætisráðherra efndi til deilna og setti störf Alþingis í uppnám á lokadögum þessa þings, með leyfi forseta, „sambærilegt við það sem gerðist í vor og hefur gerst áður, og það án fulls stuðnings ráðherra í ríkisstjórninni og jafnvel í stjórnarliðinu og vegna málefnis sem er fjarri því að vera forgangsmál í þeim vanda sem þjóðin glímir við, málefnis sem var fyrirséð að mundi valda miklum deilum og væri mjög umdeilt. Miklu veldur sá er upphafinu veldur,“ sagði hv. þingmaður.

Hann vitnaði í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, með leyfi forseta:

„Mikið ráðherraræði eykur líkurnar á gerræðislegum ákvörðunum sem efla vald viðkomandi stjórnmálamanns. Þetta helst gjarnan í hendur við þrönga sýn á lýðræðið sem felst í því að stjórnmálamenn beri verk sín reglulega undir dóm kjósenda og þess á milli eigi þeir að hafa frjálsar hendur um það hvernig þeir fara með völd sín, svo lengi sem þeir halda sig innan ramma laganna. Þetta er afar þröng sýn á lýðræðislegt lögmæti …“

Hann vék einnig að því að í meginniðurstöðum þingmannanefndarinnar um Alþingi hefur verið lögð áhersla á að auka þyrfti sjálfstæði þingsins gagnvart framkvæmdarvaldinu. Leggja bæri meiri áherslu á eftirlitshlutverk þingsins og auka fagmennsku við undirbúning löggjafar.

Virðulegi forseti. Málsmeðferð þessa máls er gjörsamlega öndvert við það sem var markmið í þessum orðum.

Hann vitnaði enn í skýrslu þingmannanefndarinnar:

„Alþingi á ekki [að] vera verkfæri í höndum framkvæmdarvalds og oddvitaræðis.“

Og:

„Alþingismönnum ber að sýna hugrekki, heiðarleika og festu í störfum sínum. Brýnt er að Alþingi og alþingismenn endurheimti traust þjóðarinnar með orðum sínum og athöfnum.“

Að öllu jöfnu ef hlutir ganga þokkalega eðlilega fyrir sig er orðfærið í takt við það en þegar allt fer úr böndunum, allt leikur lausum hala og segja má að fjandinn sé laus verður líka orðfærið í takt við það. Það er ekki hægt að tala eitthvert teprumál þegar alvara málsins er sívaxandi og til þess nú að reyna að skilja hæstv. ríkisstjórn verður maður kannski að fara svolítið út fyrir hinn hefðbundna ramma og inn á vettvang dýra merkurinnar því að allt er þetta einn búskapur á þessari jörð þó að maðurinn státi af því að vera eina skepnan sem hefur hugsun. Það eru reyndar ekki allir á sama máli um það að ekki hafi aðrar skepnur hugsun. (Gripið fram í.) Já, já, og kýr o.fl. En hún er einfaldari í sniðum og saklausari og byggir kannski meira á eðlisávísun en þróaðri slægð.

Það er fljótlegt ef maður bara tekur sviðið þegar maður reynir að skilja þá flækju sem hæstv. ríkisstjórn er komin í í nánast einu og öllu. Hún gerir ekkert nema eyða tímanum í eitthvað sem skiptir ekki máli og er ekki áríðandi. Maður neyðist til að taka þátt í þessari umræðu af því að maður vill vera jákvæður og skilningsríkur við þetta ágæta fólk.

Ein fuglategund á Íslandi sem heitir á latínu catharacta skua, (Gripið fram í.) skúmur á íslensku, minnir svolítið á ákveðna takta hjá hæstv. ríkisstjórn. Þetta er fugl af kjóaætt, hann minnir á ránfugl, er sjófugl á norðurhveli jarðar en verpir á Íslandi, í Færeyjum, Skotlandi, Noregi og á Svalbarða. Hann er fugl norðursins.

Þessi ríkisstjórn kallar sig norræna velferðarstjórn en við höfum ekki séð þess stað að hún hafi skilað árangri í þeim efnum. Þau gylliboð sem koma á borð í upphafi hafa fokið út í veður og vind eða eins og Eyfirðingar mundu segja, norður og niður. (Gripið fram í: Hvorki norræn né velferð.) Skúmurinn er klókur, hann sækir þangað sem veiðivonin er mest. Það er talsvert mikið af skúm við Vestmannaeyjar en hann verpir ekki þar. Hann verpir á Landeyjasandi og sækir svo í veisluborðið. Sama gerir hæstv. ríkisstjórn, hún er í fílabeinsturni sínum, sinnir fólkinu takmarkað, heimilum og atvinnulífi, en sækir í vasa skattborgaranna dýpra og dýpra þar sem æ minna er í að sækja. Þetta er ekki hugsað til lengri tíma. Þetta er skyndilausn gamans einnar nætur, ekki meira. Það skilar okkur ekki árangri.

Við þekkjum öll háhyrningana við Ísland sem sumir telja að séu gæludýr en eru einhverjar grimmustu skepnur hafdjúpanna. Ég man að ég sá einu sinni mynd þar sem háhyrningar voru að leika sér að selum, saklausum bláeygum selum, tæta þá og teygja lopann áður en þeir drápu þá endanlega og átu þá. Þá sagði saklaus maður: Af hverju eru þeir að búa til svona leiknar myndir? Lífið er enginn leikur í þessum efnum og hæstv. ríkisstjórn er að leika sér að eldinum með því að leika sér að fólkinu í okkar landi á þennan hátt, kasta því út og suður, hrekja það úr landi, hrekja það frá menntun, hrekja það frá heimilum sínum án þess að bregðast við eins og hægt er að gera, virðulegi forseti. Aldrei verða öll mál leyst en það vantar hryggbitann í það sem þarf að gera, aðgerðir á vegum hæstv. ríkisstjórnar.

Á norrænum slóðum eru sauðnaut. Sú tegund væri líklega útdauð ef hana hefði ekki dagað uppi á Grænlandi. Hún minnir á hina útdauðu mammúta og loðnashyrninga og sem betur fer, virðulegi forseti, sjáum við fyrir endann á lífi þessarar ríkisstjórnar. En hvert spor, hver stund, hver dagur, hver vika og hver mánuður er dýrkeypt í baráttunni við það að lifa áfram, hvort sem það eru einstaklingar eða hæstv. ráðherrar á stóli sem hafa ekki einu sinni vinnufrið fyrir félögum sínum.

Það er ein skepna sem um margt minnir á hæstv. ríkisstjórn. Hún er svipmikil, hún er áberandi, hún ber fræðiheitið rhinocerotidae og er nashyrningur. Hún minnir um margt á hæstv. ríkisstjórn vegna þess að hún er þekkt fyrir það að espast, og þannig er það að þegar illa gengur espast allt sem lifir. Það reynir af öllum mætti og það er hæstv. íslenska ríkisstjórnin að gera í dag, hún reynir af öllum mætti en getur ekki. Nashyrningurinn traðkar svörðinn allt um kring áður en hann ræðst til atlögu með hornið sitt. Það getur verið mikill slagur og mikill bardagi og það er sá bardagi sem íslenska þjóðin stendur í í dag við hæstv. ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur. Væri nær að hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra reyndi að grípa í taumana af festu því að þarna er um að ræða líkingar við skepnur sem gætu þess vegna tilheyrt hans valdsviði, ég tala ekki um þegar Kínverjarnir verða fluttir inn.

Það er ansi margt sem maður sér strax í hinu daglega lífi náttúrunnar sem veldur því að maður skilur svolítið betur ríkisstjórnina en því miður eykur það ekki samstöðu eða samúð með henni vegna þess að þetta er allt á skjön við leikreglur og vilja venjulegs fólks á Íslandi.

Geitungar eru þekkt tegund á Íslandi og reyndar víða um heim. Stærsta geitungategund sögunnar er afríkugeitungurinn og þar verður drottningin allt að 5,5 sentimetra löng, broddurinn 6 millimetrar, tegundin heitir vespa mandarinia og þessi tegund minnir svolítið á hæstv. ríkisstjórn þar sem drottningin ræður einu og öllu og svo eru hundrað hjásetar sem fylgja drottningunni og vinna hin daglegu verk, hvort sem það eru skítverk eða önnur verk. Við þurfum að horfa með þessum augum (Forseti hringir.) en það leiðir fyrst og fremst til þess, virðulegi forseti, (Forseti hringir.) að við fögnum því að með hverjum deginum styttist (Forseti hringir.) seta þessarar ríkisstjórnar á valdastóli.