139. löggjafarþing — 164. fundur,  15. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[21:30]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Það er mjög einkennilegt af hvaða krafti þetta mál er drifið af hálfu hæstv. forsætisráðherra. Ég held í raun að hæstv. forsætisráðherra Jóhanna Sigurðardóttir ætli að auka vald sitt þannig að hún geti haft í hótunum við einstaka ráðherra innan ríkisstjórnarinnar ef þeir haga sér ekki með þeim hætti sem hún vill. Við getum bent á að hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur viðrað skoðanir sínar á ýmsum málum, hæstv. innanríkisráðherra hefur líka gert það. Vígstaðan verður með allt öðrum hætti. Ef við samþykkjum þetta frumvarp hefur hæstv. forsætisráðherra sjálfdæmi um hvernig hún hagar verkum innan Stjórnarráðsins. Ég held að þetta sé gert til að reyna að auka á agann væntanlega í ríkisstjórnarliðinu og þá á einstaka ráðherrum. Ég held að það leynist engum sem hefur fylgst með umræðunni í þessu máli. En ég vara við því að þá erum við enn frekar að auka þetta oddvitavald. Ég hélt að allir þingmenn vildu fara frá því, reyna að efla Alþingi Íslendinga, auka áhrif almennra alþingismanna, koma í veg fyrir að ráðherrar geti valsað út og suður í þeirri trú að stjórnarliðið muni, eins og margt bendir til í þessu máli, vera stimpilpúði fyrir ríkisstjórnina.

Þess vegna, og það er þá svar við seinni spurningunni sem hv. þingmaður beindi til mín, er þögn stjórnarliða í þessu máli alveg hrópandi. Hún æpir á mann. Hvernig stendur á því, í ljósi þeirra þungu orða sem hér hafa fallið, ekki ljótra orða eins og ég hef heyrt stjórnarliða láta falla, við erum með mjög alvarlegar hugleiðingar í þessu máli og ég ætla að varpa þeirri spurningu til hv. þingmanns: Hvernig stendur á því að stjórnarliðar koma svona fátæklegir til umræðunnar og raun ber vitni? Það er í raun hending ef maður sér stjórnarliða í ræðustól þingsins flytja almenna ræðu um þetta mál.