139. löggjafarþing — 164. fundur,  15. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[21:45]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa ágætu samlíkingu því að mér sýnist að með vistaskiptum Vinstri grænna, að fara í samstarf með Samfylkingunni í ríkisstjórn, þá hafi ansi margt breyst í skoðunum þess flokks. Af því að hv. þingmaður nefndi sinnaskipti hæstv. fjármálaráðherra þá get ég ekki látið hjá líða að nefna að ég hef kallað hv. þm. Árna Þór Sigurðsson ítrekað upp í umræðunni í dag. Ég vil vitna til ræðu hans þegar verið var að sameina landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneytin fyrir stuttu, með leyfi frú forseta:

„Ég ætla að lokum, frú forseti, að segja það að mér finnst ófullnægjandi að allsherjarnefndin ein fjalli um þetta mál. Hér er um stórt mál að ræða sem snertir margar fagnefndir í þinginu. Mér finnst þess vegna nauðsynlegt að senda það jafnframt til skoðunar og umsagnar í einstökum fagnefndum. Ég mun leggja það formlega til við afgreiðslu málsins, þegar því verður vísað til nefndar, að það fari jafnframt til viðkomandi fagnefnda.“

Þarna leggur hv. þingmaður það til að áhrif þingsins verði aukin við umfjöllun málsins. Núna nokkrum mánuðum seinna ætlar hv. þingmaður að standa að því að þær valdheimildir þingsins verði færðar úr þingsölum til hæstv. forsætisráðherra sem mun hafa sjálfdæmi um það hvernig hún mun skipa verkum innan Stjórnarráðsins. Er óeðlilegt að við spyrjum hv. þingmenn og hæstv. ráðherra hvað valdi þeim snörpu sinnaskiptum og breytingu á hugsjónum hjá þessum flokki sem stóð vörð um þingræðið og talaði mjög fallega um það á árum áður. Hvað veldur því?

Það sem gerir mann reiðan og pirraðan er að maður er ekki virtur viðlits. Maður spyr margra spurninga en hv. þingmenn koma ekki til umræðunnar og svara ekki spurningum og það er nefnilega ekki gott. Það er heldur ekki gott, eins og ég sagði um hæstv. forsætisráðherra og ummæli hennar í kvöldfréttum í kvöld, (Forseti hringir.) að segja ekki rétt frá um innihald þessa máls.