139. löggjafarþing — 164. fundur,  15. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[22:05]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta allshn. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Auðvitað erum við hv. þingmaður algerlega sammála um þessi mál. Það er algerlega ófært á þessum tímum hvernig ríkisstjórnin heldur á málunum. Auðvitað er það ekkert annað en öfugmæli að kalla þessa aumu vesælu ríkisstjórn velferðarstjórn. Ég bara missti þetta út úr mér, þetta var eitthvert slagorð í kosningabaráttunni. Maður verður náttúrlega að temja sér íslenskt málfar og segja sannleikann og segja: helferðarríkisstjórn, því þessi vesæla stjórn er ekki á neinni annarri leið.

Varðandi hvernig framkvæmdarvaldið mokar undir sjálft sig og leggur til sparnað á öðrum sviðum þá benti hv. þingmaður á ESB-umsóknina. Fyrir ekki svo löngu lagði ég á það mat hvað umsóknin mundi kosta þjóðarbúið og það hleypur á tugum milljarða. Ég nefni líka að það var lögfest fyrir síðustu jól að Íslendingar mundu reiða af hendi 7 milljarða á sex árum til Þróunarsjóðs EFTA, að sjálfsögðu í erlendum gjaldeyri, á meðan varla er hægt að hafa hér opin sjúkrahús. Þróunarsjóður EFTA hefur það hlutverk að hjálpa bágstöddum ríkjum innan Evrópusambandsins. Íslenska þjóðin lenti í bankahruni en þá gerir hæstv. utanríkisráðherra þetta, því eitt af skilyrðum þess að hægt yrði að halda áfram með aðildarumsóknina var að þetta ákvæði yrði lögfest í EES-samningnum en það var samningsbundið áður. Svona er allt. Svona er málum laumað í gegnum þingið, fyrir utan náttúrlega alla aðra kostnaðarliði sem hljótast af umsókninni.

Ég þarf ekki að minna hv. þingmann á að ég er mikill talsmaður þess að Landhelgisgæslan verði efld. Hann veit það vel því ég hef flutt ræður og farið í utandagskrárumræðu um það. Það er til skammar að ríkisstjórnin skuli ekki einu sinni geta séð um að Landhelgisgæslan sé rekstrarhæf.