139. löggjafarþing — 164. fundur,  15. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[22:07]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við erum að tala um ríkisfjármálin og kostnað og af hverju menn hafa alltaf peninga til að setja í framkvæmdarvaldið. Það er mér algerlega óskiljanlegt. Ég er búinn að flytja margra klukkutíma ræður um það í gegnum tíðina. Ég hef aldrei getað skilið þetta virðingarleysi fyrir fjármunum.

Ef við tölum um hlutina eins og þeir eru voru tvö ráðuneyti sameinuð í fyrra, innanríkisráðuneytið og velferðarráðuneytið. Það átti að skila sparnaði og hagræðingu en hver varð raunin? Raunin varð sú að hagræðingarkrafan á innanríkisráðuneytið var 3% og 4% á velferðarráðuneytið, þ.e. rúm 3% og í kringum 4%. Samt voru niðurskurðartillögur í stjórnsýslunni upp á 9%. Þetta er eitt af því sem gert er, menn fara af stað í einhverja vegferð og halda að hún skili einhverjum sparnaði en svo er raunin allt önnur.

Svo vil ég nefna eitt dæmi sem er nýbúið að fara í gegnum þingið og hæstv. forseti sem nú situr í forsetastól, hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir, benti mér á það í mörgum ræðum þegar verið var að sameina landlæknisembættið og Lýðheilsustöð. Hvað var gert þar? Bruðlað með peninga og ekkert annað. Tugir milljóna, bruðlað með peninga. Svo þegar á að skera niður hjá viðkomandi stofnun er bara eitt hægt að gera; fækka starfsfólki. Það liggur alveg fyrir. Það er ekkert annað hægt að gera því launin eru það stór rekstrarþáttur hjá þessum opinberu stofnunum. Þá er starfsfólki fækkað en menn eru samt að bruðla með peninga.

Ég er þess alveg fullviss að þegar húsnæði ráðuneytanna var breytt þegar þau voru sameinuð og allt í kringum það, hafi verið farið langt, langt fram úr áætlun. Við erum að bruðla með tugi hundruð milljóna í hverju verkefninu á fætur öðru en á sama tíma göngum við hart gegn öryrkjum, eldri borgurum, velferðarkerfinu, getum ekki sinnt öryggismálum sjómanna. (Forseti hringir.) Þetta er bara hin blákalda staðreynd sem blasir við okkur á hverjum degi.