139. löggjafarþing — 164. fundur,  15. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[22:09]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hann hefur í máli sínu, bæði nú og fyrr í umræðunni komið mjög vel inn á þann mikla fjáraustur í þessu máli og hjá ríkisstjórninni almennt og hver forgangsröðun er þegar kemur að fjármunum.

Það virðist vera svo að í málum sem skipta raunverulega máli, og þetta þekkjum við hv. þingmaður vel til að mynda af umræðunni á landsbyggðinni á síðasta ári þegar skorið var niður í heilbrigðiskerfinu, þá er hver króna talin og farið í allar matarholur, skorið niður í velferðarþjónustunni, menntakerfinu, samgöngunum. Nánast ekkert fjármagn er ætlað til samgönguuppbyggingar, fjarskiptamála, menntamála og svo mætti lengi telja, (TÞH: Löggæslu.) svo ekki sé minnst á löggæsluna, hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson, gengið hefur verið mjög nærri löggæslunni og víða er það að verða að miklu vandamáli og margir hafa vaxandi áhyggjur af því hvert stefnir í þeim málum. En í frumvarpi eins og þessu er komið fram með tillögur upp á hundruð milljóna króna aukaútgjöld og ekkert kveðið á um það, engir útreikningar og ekki neitt. Það er að verða, frú forseti, mjög hættuleg þróun hvað þetta gerist ítrekað hjá hæstv. ríkisstjórn.

Af því að hv. þingmaður hefur tjáð sig mikið um þessi mál og hefur tekið þau einmitt út frá þessum vinkli, þá langar mig að spyrja hann hvernig hægt sé að koma einhverju skikki á þetta hjá hæstv. ríkisstjórn. Hvernig getum við á Alþingi reynt að breyta hlutum þannig að hæstv. ríkisstjórn komist ekki upp með þetta?