139. löggjafarþing — 164. fundur,  15. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[22:41]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur fyrir ræðuna. Mig langar til að spyrja hv. þingmann hvort hún telji að gera þurfi breytingar á Stjórnarráði Íslands, hvort hún sjái ástæðu til þess að gera breytingar, hvort hún sjái einhverja ágalla á því fyrirkomulagi sem er núna. Hv. þingmaður er fyrrverandi ráðherra og á að þekkja þetta ágætlega. Hvaða helstu ágalla sér hún á skipan Stjórnarráðsins í dag og hvernig á að að bregðast við? Hvaða tillögur og hugmyndir er þingmaðurinn með í þeim efnum?

Í athugasemdum við frumvarp sem fyrrverandi forsætisráðherra lagði fram árið 2007 segir, með leyfi forseta:

„Allar þessar breytingar miða að því að laga stjórnsýsluna og verkefni ráðuneyta betur að þörfum nútímans.“

Ég held að allir geti tekið undir það en spyr: Telur hv. þingmaður að það sé svo með allar þessar tillögur?

„Ráðuneyti verði þannig öflugar einingar þar sem skyldum málaflokkum er skipað saman undir eina stjórn.“

Í frumvarpinu er lögð til sú einfalda breyting að með forsetaúrskurði megi ákveða tilhögun ráðuneyta. Skil ég hv. þingmann rétt að henni lítist ekki á þær hugmyndir sem þarna koma fram og hverjar eru tillögur hv. þingmanns að öðru leyti? Hvernig vill hún sjá breytingar á Stjórnarráðinu ef nokkrar?