139. löggjafarþing — 164. fundur,  15. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[22:46]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég kýs þá að skilja hv. þingmann þannig að hún sé fylgjandi breytingum á Stjórnarráðinu, hún telji að gera þurfi breytingar á fyrirkomulagi Stjórnarráðsins eins og það er í dag. Ég kýs að skilja svar hennar þannig að hv. þingmaður telji að það megi ná fram mörgum öðrum breytingum með sameiningu til dæmis ráðuneyta, eflingu ráðuneyta, virkja mannauðinn betur, hæfnina, færnina og kunnáttuna sem er til staðar í mörgum litlum skiptum ráðuneytum. Ég hef ekki heyrt neinn tala um að það eigi að skipta upp sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu aftur. Ég heyri hins vegar að hv. þingmaður hefur efasemdir um þær breytingar sem hafa verið gerðar eftir að hv. þingmaður fór úr stjórnarliðinu en er heldur hliðholl þeim breytingum sem voru gerðar meðan hv. þingmaður tilheyrði stjórnarliðinu sem gerði þær breytingar á sínum tíma. Ég held að afstaða hennar til ríkisstjórnarinnar endurspegli aðeins þessi viðhorf þrátt fyrir að hún haldi öðru fram.

Ég kýs að skilja hana þannig að hún telji nauðsynlegt (Forseti hringir.) að grípa til einhverra ráðstafana. Það er ekki verið að fara fram með neinum látum. Núna í haust eru þrjú ár liðin frá því að stærstu ágallar í stjórnskipun okkar komu (Forseti hringir.) fram. Það var ekki aðeins efnahagslegt hrun heldur kom fram þessi mikli (Forseti hringir.) halli á stjórnsýslunni og það er ekki verið að fara fram með neinum asa þó að það (Forseti hringir.) sé verið að samþykkja breytingar …

(Forseti (RR): Forseti biður hv. þingmenn að virða þann ræðutíma sem þeim er úthlutað.)