139. löggjafarþing — 164. fundur,  15. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[22:53]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Aðeins aftur að þessu með umsagnirnar því að það er mjög mikilvægt að fólk og félagasamtök, og aðrir utan veggja Alþingis geti haft eitthvað um málin að segja. Það hefur sýnt sig á þessu kjörtímabili. Þegar Alþingi hafði það til umfjöllunar að mynda svokallað atvinnuvegaráðuneyti voru mjög margir aðilar sem veittu umsögn um það hvort þeir teldu það heppilegt eða ekki. Um þetta voru skiptar skoðanir og að lokum mat nefndin það svo að skynsamlegt væri að taka þetta ákvæði út úr frumvarpinu áður en það yrði samþykkt á Alþingi.

Ef hv. þingmaður hefur rétt fyrir sér með það að eini tilgangur frumvarpsins sé sá að hæstv. forsætisráðherra geti hakað við það í kladdanum, er það þá ekki mjög alvarlegt fyrir þjóðina? Ef hæstv. forsætisráðherra vill fyrst og fremst geta hakað við þetta frumvarp í kladdanum fyrir landsfund Samfylkingar, er það ekki mikið áhyggjuefni fyrir heimilin og fólkið í landinu?