139. löggjafarþing — 164. fundur,  15. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[22:57]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Um leið og ég þakka hæstv. innanríkisráðherra fyrir að hafa setið hér og hlustað á ræðu mína verð ég að segja að ég sakna svara við nokkrum af spurningum mínum. En ég greini það engu að síður að eftir sem áður, og þrátt fyrir fallega orðaða hugsun í ræðunni, stendur fyrirvari hæstv. innanríkisráðherra gagnvart málinu enn. Hann telur að málið hafi þroskast, þá væri forvitnilegt að vita í hvaða veru. Telur hæstv. ráðherra rétt að málið þroskist í þann farveg innan meiri hlutans í allsherjarnefnd að völd forsætisráðherra, með þessari breytingu sem hefði verið mikil, verði í raun takmarkalaus, þ.e. ekki er lengur hámark á þeim ráðuneytum sem hæstv. forsætisráðherra á að skipa heldur getur forsætisráðherra verið með einn eða tíu ráðherra, hann getur verið með tuttugu ráðherra. Telur hv. þingmaður það vera réttu breytinguna, að málið þroskist með þessum hætti? Það væri forvitnilegt að vita hvað hæstv. ráðherra segir hvað þetta varðar.

Ég vil gjarnan fá svör við þeim tveimur lykilspurningum sem ég bar upp áðan. Hvað liggur á? Hvaða dagsetning knýr á um það að við erum á þessum septemberstubbi að afgreiða þetta mál en ekki málefni sem snerta til að mynda heimilin, fjölskyldurnar og fyrirtækin í landinu, sem meðal annars eru á dagskrá á þinginu. Önnur dagsetningarmál sem skipta máli. Hvað knýr þetta mál áfram? Ég vil gjarnan fá svar við því. Ég spyr líka hvort hann sé ekki sammála mér í því að með þeirri vegferð sem verið er að leggja út í sé ekki bara verið að auka miðstýringu innan ráðuneytanna, eins og hann sagði réttilega að hans fyrirvari hefði snúist um, heldur líka verið að skerða eftirlitshlutverk löggjafarvaldsins með ráðuneytunum. Er ekki verið að færa vald frá þinginu yfir til framkvæmdarvaldsins?