139. löggjafarþing — 164. fundur,  15. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[23:00]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Þetta var stutt en mjög hnitmiðað andsvar. Það þarf ekkert að lesa á milli línanna með þetta andsvar. Hæstv. innanríkisráðherra er með beinum orðum að taka undir þá gagnrýni sem við í stjórnarandstöðu höfum sett fram nú á síðustu dögum, að það er verið að færa takmarkalaust vald til forsætisráðherra. Það er verið að færa forsætisráðherra ekki bara mjög mikil völd heldur gríðarlega mikil völd (Gripið fram í.) og á kostnað þingsins. Á kostnað þingsins á að færa vald frá þinginu yfir til forsætisráðuneytisins.

Fyrirvarar innanríkisráðherra standa, það er stóra fréttin. Það er best að undirstrika að miðað við allt það sem við höfum verið að segja núna, nema hæstv. ráðherra vilji koma og segja eitthvað allt annað, er ekki hægt að lesa annað á milli línanna en að þeir standi. Ég fagna því sérstaklega að hæstv. innanríkisráðherra er jafnheiðarlegur og einlægur og hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sem kom upp í andsvari áðan í skoðun (Forseti hringir.) sinni og afstöðu. Það er ljóst að fyrirvarar þessara ráðherra standa. Þeir eru á móti þessari miðstýringaráráttu sem ríkisstjórnin (Forseti hringir.) stendur fyrir, þeir eru á móti valdaframsali frá þingi til ríkisstjórnar.