139. löggjafarþing — 164. fundur,  16. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[00:04]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni ágæta ræðu sem ég hlustaði á af mikilli athygli. Það hefur vakið eftirtekt okkar við þessa umræðu að verið er að skerða valdheimildir Alþingis með skipan Stjórnarráðsins sem hefur um áratugaskeið verið með þeim hætti að ef breytingar eru gerðar á Stjórnarráðinu hefur þingið fengið málið til umfjöllunar og fulltrúar allra þingflokka getað komið að því.

Nú hef ég skilið málið þannig og reyndar flestir aðrir þingmenn stjórnarandstöðunnar og líka sumir þingmenn ríkisstjórnarinnar að það sé verið að færa valdheimildir frá Alþingi til hæstv. forsætisráðherra og að hún muni hafa alræðisvald þegar kemur að því að skipa Stjórnarráð Íslands.

Mér brá í dag þegar ég heyrði í síðdegisfréttum Ríkisútvarpsins eftirfarandi haft eftir hæstv. forsætisráðherra, með leyfi frú forseta:

„Forsætisráðherra segir það rangt að verið sé að auka valdheimildir forsætisráðherra í stjórnarráðsfrumvarpinu.“

Ég spyr hv. þm. Tryggva Þór Herbertsson hvort hann telji að forsætisráðherra sé að segja þjóðinni satt í fréttum Ríkisútvarpsins kl. 16 í dag. Ég er ekki sammála þessu. Eða er mögulegt að hæstv. forsætisráðherra misskilji það frumvarp sem við ræðum hér? Að minnsta kosti hefur vakið athygli mína að hæstv. forsætisráðherra hefur skipulega forðast að taka þátt í umræðum og svara spurningum og þess vegna spyr ég hv. þingmann hvort hann telji að hæstv. forsætisráðherra misskilji það frumvarp sem um ræðir eða sé að segja ósatt við Ríkisútvarpið.