139. löggjafarþing — 164. fundur,  16. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[00:08]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Að sjálfsögðu hljótum við þá að álykta sem svo að hæstv. forsætisráðherra misskilji eitthvað varðandi það frumvarp sem við ræðum hér. Þess vegna er svo slæmt að hæstv. forsætisráðherra skuli ekki koma til umræðunnar til að ræða þetta viðamikla mál. Í fyrsta sinn í sögu lýðveldisins er verið að reyna að keyra í gegn breytingar á lögum um Stjórnarráð Íslands án þess að stjórnarandstaðan hafi fengið aðkomu að því. Það er rétt sem hv. þingmenn hafa velt fyrir sér og ég spyr hv. þingmann hvort hann telji líkur á því miðað við vinnubrögðin í þessu að við megum eiga von á frumvarpi frá hæstv. forsætisráðherra í byrjun októberþings, frá meiri hlutanum, sem keyrt verður í gegn, frumvarpi um breytingar á þingsköpum þar sem meðal annars réttur okkur þingmanna til að spyrja ráðherra út úr verður skertur og jafnvel málfrelsið. Maður veltir fyrir sér á hvaða vegferð ríkisstjórnin sé þegar kemur að vinnubrögðum sem þessum.

Svo langar mig að spyrja hv. þingmann hvort hann hafi sérstaka skoðun á því hvernig Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur snúið frá fyrri stefnu sinni. Þau stóðu í stafni í mörg ár, sögðust vera þingræðissinnar, vildu verja valdheimildir Alþingis og töluðu um yfirgang framkvæmdarvaldsins. Ég minnist ræðu hæstv. fjármálaráðherra frá árinu 2007 þar sem hann talaði um að mál sem þessi ættu að afgreiðast í sátt. Nú virðist Vinstri hreyfingin – grænt framboð vera búin að snúa frá þessari stefnu sinni, með nokkrum undantekningum þó, og ég spyr hv. þingmann hvort hann geti útskýrt hvernig standi á því að Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur gjörsamlega snúið frá fyrri stefnu sinni í þessu máli og bakkar nú hæstv. forsætisráðherra upp í því að hafa alræðisvald er varðar skipan Stjórnarráðsins.