139. löggjafarþing — 164. fundur,  16. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[00:38]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta allshn. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Jóni Gunnarssyni kærlega fyrir framsöguræðu hans. Hann komst akkúrat að því sem er að gerast með frumvarpi þessu. Hann benti svo sannarlega á þá kratavæðingu sem á sér stað í þessu frumvarpi.

Vinstri mönnum hefur alltaf þótt gott að eyða skattfé og það speglast í þessu frumvarpi vegna þess að hér er lagt til að ráðnir verði 23 aðstoðarmenn við ráðuneytin. Hér er verið að færa bæði vald og peninga undir hæstv. forsætisráðherra og ráðuneyti hennar án þess einu sinni að athuga hvað það kostar endanlega, hvað þá heldur að leita eftir því að fá fjárheimildir til þess á fjárlögum þessa árs, því að þetta á að taka gildi um leið og lögin taka gildi en í frumvarpinu var lagt til að þetta tæki gildi eftir næstu kosningar.

Ég sé að hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra er afar kátur í kvöld og ætlaði flissinu ekki að linna hjá ráðherranum undir ræðunni hjá þingmanninum. En það er ekki nema von að hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra sé kátur því að hann stendur fyrst og fremst vörð um fjármagnseigendur og bankastofnanir og það voru að berast af því fréttir í þessari viku að bankarnir hafi hagnast síðustu sex mánuði [Kliður í þingsal.] um rúmlega 40 milljarða, án þess að nokkuð sé gert hjá þessari verklausu ríkisstjórn til að aðstoða heimili og fjölskyldur.

Formaður Framsóknarflokksins var með utandagskrárumræðu í vikunni um stöðu afskrifta heimila og fjölskyldna og hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra var hér ekki til andsvara en kom því yfir á hæstv. velferðarráðherra.

Mig langar til að spyrja þingmanninn hvers vegna ríkisstjórnin þurfi að fá svona marga aðstoðarmenn eins og hér er lagt til því að ekki er nóg með að þeir séu 20 eins og lagt er til í frumvarpinu heldur liggur hér líka breytingartillaga frá meiri hlutanum um að bæta í (Forseti hringir.) þannig að þeir verði 23. Hver er ástæðan?