139. löggjafarþing — 164. fundur,  16. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[00:49]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég vil eiginlega óska hv. þm. Jóni Gunnarssyni til hamingju með þá nýju aðferð í málþófi að flytja alltaf sömu ræðuna. Þegar ég gekk í salinn kannaðist ég við það sem hv. þingmaður var að segja, ég var með ræðuna einmitt á borðinu hjá mér af því að mér fannst hún svo merkileg, sú sem var flutt hérna fyrir tveimur dögum, og þá sá ég að þetta var sama ræðan. Þess vegna var þetta skvaldur í salnum að við vorum að reyna hér nokkrir að fylgja handritinu og grípa fram í þar sem gripið var fram í í síðustu ræðunni til þess að effektinn væri sá sami í ræðunni sem nú var flutt.

Því miður var þessi ræða — það var einn munur, hún varð að vera styttri en hin ræðan því að hin var 40 mínútur en þessi var bara 20 mínútur, það varð því að fella úr henni ýmislegt sem var í hinni ræðunni. Þess vegna er ég hér má segja að gagnrýna þær úrfellingar. Að vísu má segja að í andsvari áðan kom þingmaður að því sem mér fannst einn af hápunktum fyrri ræðunnar sem var þetta með umhverfisráðuneytið, að það ætti leggja umhverfisráðuneytið niður og gera það að deildum í ýmsum atvinnuvegaráðuneytum, sem er góð hugmynd, þannig að það sé sem sagt sjávarútvegsráðuneyti og svo komi svona umhverfisdeild í sjávarútvegsráðuneytinu og þannig verði Stjórnarráðið eiginlega atvinnuvegaráðuneyti með umhverfisdeildum. Þetta fannst mér gott. Ég saknaði hins vegar sárlega, ég var að reyna og ég skal viðurkenna að ég fór aðeins út úr handriti mínu til að fá aftur hvalveiðikaflann úr fyrri ræðunni sem var einn af listrænum hápunktum hennar.

En ég er eiginlega kominn hingað fyrst og fremst til að biðja hv. þm. Jón Gunnarsson um að endurtaka þó málþófskaflann sem hann sleppti í þessari ræðu en þar er þessi góða setning, hvar er hún nú? að málþóf sé hundleiðinlegt. „Málþóf er hundleiðinlegt“ — sagði hv. þingmaður — „en maður verður nú að láta sig hafa það“. Nú er ég ekki með þetta, ég skal taka þetta í seinna andsvari en ég bið hann sem sé að endurtaka þennan kafla þó ekki sé nema eftir minni því að það er einn af mikilvægustu köflum ræðunnar og sá sem oftast var vitnað í eftir að hann flutti sína fyrri útgáfu af þessari ágætu ræðu sinni.