139. löggjafarþing — 164. fundur,  16. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[00:55]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er staðan að málþóf er leiðinlegt. En það er eins og ég sagði í einni ræðu minni annarri sem ég flutti hér að það getur verið nauðsynlegt og ég held að þó að fólk hneykslist á þessu hafi margir skilning á því. Ég held að það komi ekki í veg fyrir það að hér hafi verið fluttar margar mjög áhugaverðar ræður. Ég sé að hv. þm. Merði Árnasyni finnast mínar ræður slíkar, alla vega er hann með þær útprentaðar til að lesa. Hann mætti prenta út og ég vona að hann prenti út fleiri ræður til að kynna sér þann málflutning sem hér hefur verið. [Frammíköll í þingsal.]

En ég ætla að nota þær 15 sekúndur, virðulegi forseti, sem ég hef til að koma að Alþjóðahvalveiðiráðinu [Hlátur í þingsal.] af því að hann bað alveg sérstaklega um það, hv. þingmaður, að ég gerði það. Það er einmitt þess vegna sem ég hræðist m.a. þetta frumvarp vegna þess að ég veit af hugmyndum margra vinstri manna um að færa hvalveiðar frá sjávarútvegsráðuneytinu (Forseti hringir.) og yfir í umhverfisráðuneytið eins og það er í mörgum löndum og flestum ef ekki öllum löndum Evrópusambandsins (Forseti hringir.) þar sem umhverfisráðuneyti fara með þennan málaflokk og málin eru eins og þau eru að þau taka ekki mið af (Forseti hringir.) neinni skynsemi.