139. löggjafarþing — 164. fundur,  16. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[01:00]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég vil segja — þar sem ég sat hér í þingsal og fylgdist með hinni sögulegu ræðu hv. þm. Jóns Gunnarssonar, sem var vel að merkja glæsilegur endurflutningur á sömu ræðu og sýndi, eins og í leikhúsi fáránleikans, að endurtekningin er aldrei of oft endurtekin — að okkur gekk það eitt til að hlusta á þessa merkilegu ræðu.

Hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar mega ekki taka það of óstinnt upp þó að hlegið sé undir ræðum ef menn eru skemmtilegir eins og þarna gerðist raunverulega. Við vorum auðvitað vitni að listrænu furðuverki þegar flutt var nokkurn veginn sama ræðan og var flutt fyrir tveimur dögum. Við vorum einfaldlega að reyna að lifa okkur inn í þetta listræna stórvirki. Við vorum að reyna að grípa inn í á réttum stöðum. Við vorum að reyna að taka þátt í þessari endursköpun. Þetta var gerningur eins og hann glæstastur getur orðið.