139. löggjafarþing — 164. fundur,  16. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[01:29]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Sá sem hér stendur var eitt sinn aðstoðarmaður. Það verður að segjast að ég hefði alveg verið til í að hafa aukna aðstoð við það starf. Það var ærinn starfi. (Gripið fram í.) Eins og ég sagði í ræðu minni áðan tel ég að það megi færa fyrir því rök að styrkja megi pólitíska stöðu hæstv. ráðherra í ráðuneytunum. Í sjálfu sér hefur það verið gert, sumir hæstv. ráðherrar hafa haft pólitískan aðstoðarmann og síðan svokallaða ráðgjafa. Það sem ég er að segja er að við þær aðstæður sem við stöndum frammi fyrir núna þegar yfir vofir að við þurfum að fara í erfiðar og sársaukafullar aðgerðir þar sem hætta er á því að fólk missi atvinnu sína og verði af mikilvægri þjónustu tel ég hvorki skynsamlegt né rétt að við leggjum til og samþykkjum á hinu háa Alþingi að fjölga pólitískum aðstoðarmönnum. Ég held að það fari ekki vel á því, frú forseti.