139. löggjafarþing — 164. fundur,  16. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[01:30]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu. Hann kom inn á eitt atriði í máli sínu sem ekki hefur verið rætt enn í þessari umræðu, þ.e. að þeir ágætu hæstv. ráðherrar sem í kvöld lýstu yfir andstöðu, vil ég segja, við frumvarp hæstv. forsætisráðherra, Jóhönnu Sigurðardóttur, (Gripið fram í.) hefðu tekið þátt í að samþykkja samstarfsyfirlýsingu milli þessara flokka um leið og þeir tóku sæti í ríkisstjórn, og að hægt sé að virða þeim það til vorkunnar.

En ef við skoðum það sem gerðist hér á þingi fyrr á þessu kjörtímabili, þegar Alþingi tók út ákveðinn hluta sem sneri að því að búa til svokallað atvinnuvegaráðuneyti, meðal annars eftir mikla andstöðu hjá öðrum stjórnarflokknum, hjá hagsmunasamtökum, hjá fólki úti í þjóðfélaginu, félagasamtökum og fleira — þannig að sú sameining gekk ekki eftir. Þá kemur þetta frumvarp að því er virðist í beinu framhaldi af því að ekki tókst að sameina ráðuneyti eða flytja til málaflokka eins og hæstv. forsætisráðherra hafði í hyggju. Þá kemur frumvarp sem er í raun ekki í samræmi við það sem lagt var upp með í samstarfsyfirlýsingu þessara tveggja flokka. Er þá ekki nokkuð nærtækt að áætla að það hafi ekki tekist einmitt vegna þess að ekki hafi verið meiri hluti fyrir þeirri stefnu sem hæstv. forsætisráðherra ætlaði að framkvæma hér á Alþingi? Liggur þá ekki beint við að áætla að þetta frumvarp sé bein afleiðing af því og með þessu sé þetta vald flutt til forsætisráðherra (Forseti hringir.) frá þinginu?