139. löggjafarþing — 164. fundur,  16. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[01:36]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er rétt sem hv. þingmaður nefndi hér að það hafa gengið í gegn alveg gríðarlega miklar breytingar á þessu öllu saman. Stundum verður manni hugsað til þess að hér séu á ferðinni heilmikil uppgrip fyrir alls konar lögfræðinga, að sitja yfir því að greiða úr þessari flækju sem myndast við þetta allt saman, það er ekkert auðvelt að rekja sig í gegnum þetta.

Hvað það varðar hvernig standa eigi að breytingunum hef ég viljað vekja athygli á því hvernig Finnar standa að sínum málum. Ég tel að það sé einmitt enn þá, frú forseti, tækifæri fyrir hæstv. forsætisráðherra til að taka þær breytingar sem ríkisstjórnarflokkarnir náðu samkomulagi um, þegar skrifað var undir stefnu- og samstarfsyfirlýsingu, setja þær í frumvarpsform og leggja þær fram. Það mun ekki taka langan tíma að fara í gegnum þær breytingar. (Forseti hringir.) Það á að vera hægt að ná góðri sátt um slíkt, í það minnsta ef fyrir liggur (Forseti hringir.) meiri hluti í þinginu.