139. löggjafarþing — 164. fundur,  16. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[01:37]
Horfa

Frsm. meiri hluta allshn. (Róbert Marshall) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Nú hafa nýverið verið samþykkt tvö viðamikil frumvörp hér á Alþingi sem miða einmitt að því að bæta og styrkja stöðu Alþingis; lög um rannsóknarnefndir sem voru flutt hér og samþykkt í mikilli sátt og lög um breytt þingsköp sem eins og í hinu fyrrnefnda er ætlað að styrkja mjög stöðu þingsins og tókst mjög vel að gera það í góðri sátt milli þingmanna hér á Alþingi, ólíkra flokka.

Nú kallar hv. þingmaður á enn frekara samstarf og samráð í samþykkt frumvarps um Stjórnarráðið. Þegar sjónarmiðum hv. stjórnarandstöðuþingmanna hefur verið mætt í því máli orðar hann það með þeim ósmekklega hætti að þeir hafi verið keyptir til fylgilags við málið. Því vil ég mótmæla. Það er að sjálfsögðu ekki verið að kaupa einn né neinn þegar menn eru að mæta ólíkum sjónarmiðum og koma til móts við ólíkar skoðanir. Það er ekki eins og hv. þingmenn sem lögðu það til að ríkisstjórnarfundir yrðu hljóðritaðir séu að fá eitthvað fyrir sinn snúð þó að skoðanir þeirra séu virtar í málinu. Þær eru góðra gjalda verðar og ég styð þær.

Ég mundi gjarnan vilja heyra hvernig hv. þingmaður sjái það fyrir sér að ríkisstjórnarflokkarnir eigi að nálgast Sjálfstæðisflokkinn í þessum efnum ef þannig er litið á málin að kaupa þurfi flokka eða þingmenn sérstaklega til þess að ná samstöðu. Það er auðvitað af og frá.

Ég vil líka spyrja hv. þingmann að því — af því mér heyrist hann vera búinn að komast að niðurstöðu í þessu máli, það er sjálfsagt að þeir taki þann tíma sem þeir þurfa til þess að rökræða málið og ná lendingu í því hér í ræðustól —hvort þá sé ekki kominn tími til þess einmitt að hann láti þá afstöðu í ljós í atkvæðagreiðslu með því að ýta, að því mér sýnist hann muni gera, á nei-takkann.