139. löggjafarþing — 164. fundur,  16. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[01:40]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég verð að segja að athugasemd hv. þm. Róberts Marshalls er réttmæt hvað varðar ummæli mín um að kaup hafi farið fram, og ég vil draga þau til baka. Það var ekki það sem ég átti við. Það sem ég var raunverulega að hugsa, frú forseti, var það að þegar verið er að ná samkomulagi þurfa menn að gefa eftir í ýmsu, ná fram hluta af kröfum sínum og öðrum ekki, það var sú hugsun sem lá að baki. En þetta er réttmæt ábending hjá hv. þingmanni og sjálfsagt að taka hana til greina.

Hvað varðar það að ganga nú strax til atkvæða um þetta mál. Það er reyndar eftir töluvert af umræðum hér, tel ég. Ég hef ekki orðið var við að af hálfu stjórnarþingmanna fáist svör við mörgum af þeim athugasemdum sem hafa komið fram. Ég vil til dæmis gjarnan fá að heyra, og það mun þá kannski hjálpa mér til þess að komast að þeim punkti að geta greitt atkvæði um málið með góðri samvisku, nákvæmlega hvað það er sem rekur þetta mál svona áfram. Ástæðan fyrir því að ég spyr er meðal annars sú að náðst hefur um það góð sátt hér í þinginu að við þurfum að ráðast í breytingar á stjórnarskránni. Ég hefði talið eðlilegra að ná fyrst fram góðri sátt um slíkar breytingar og þegar þær lægju fyrir ætti að gera breytingar á lögum um Stjórnarráðið, af því að Stjórnarráðið á sinn grunn í því fyrirkomulagi sem kveðið er á um í stjórnarskránni. Það er þess vegna sem ég spyr: Hvers vegna hastar svona?

Ef þetta snýst um það að ríkisstjórnin þurfi að ná fram þeim markmiðum sem sett eru fram í stefnuyfirlýsingunni eða samstarfsyfirlýsingunni, er hægt að gera það með allt öðrum hætti. Þá er hægt að leggja fram frumvarp þar sem þær breytingar eru tíundaðar og við getum við tekið það frumvarp til umræðu og afgreiðslu. Og ef meiri hluti er fyrir þeirri niðurstöðu, eins og maður skyldi ætla vegna þess að þetta er jú samstarfsyfirlýsing ríkisstjórnarinnar og hún ætti að halda, er hægt að ná fram þeim markmiðum sem ríkisstjórnin hefur sett sér.