139. löggjafarþing — 164. fundur,  16. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[01:42]
Horfa

Frsm. meiri hluta allshn. (Róbert Marshall) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er af og frá að það sé eitthvað í þessu máli sem ber það með sér að verið sé að keyra það af einhverju offorsi hér í gegnum þingið, það er af og frá. Það er ekkert sem hastar í málinu. Það hefur verið í viðamikilli úttekt og langri hjá allsherjarnefnd frá því síðasta vetur, gríðarlegri umræðu hér í þinginu í vor sem leið og var ekki afgreitt úr nefnd á þeim tíma heldur bara sent inn í þessa septemberdaga með þá ætlun að það yrði afgreitt, og gefið út sérstaklega að það yrði gert á þessum septemberdögum hér á þinginu. Það liggur fyrir að við fórum yfir þetta mál á fjölmörgum fundum, það getur hv. þm. Vigdís Hauksdóttir staðfest, í aðdraganda þeirra þingdaga sem nú standa yfir, einmitt með það að markmiði að ná sem víðtækastri (VigH: Það náðist ekki sátt. Það var fellt.) sátt um málið. Þegar menn eru komnir eins langt og mögulegt er í þá áttina er bara komið að þeim tímapunkti að menn nota þá lýðræðislegu aðferð að greiða atkvæði. Það eigum við að fara (Gripið fram í.) að gera. Það eigum við að gera. (Gripið fram í.)