139. löggjafarþing — 164. fundur,  16. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[01:44]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (um fundarstjórn):

Forseti. Það er auðvitað þannig að þingmenn verða að gæta orða sinna hér úr stólnum og um leið verður að fyrirgefa mönnum að bregða út af því þegar mikið gengur á. Það er líka þannig að sá þingmaður sem er á forsetastóli verður að fara varlega í dómum sínum og ályktunum um það sem þingmenn segja.

Ég kem hér upp í fullri vinsemd en líka í fullri alvöru til að bera hönd fyrir höfuð hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra sem var sakaður um það hér áðan að hafa kallað Alþingi leikhús fáránleikans. Það sem ráðherrann sagði var að merkingarlitlar endurtekningar í tiltekinni ræðu hefðu verið eins og í leikhúsi fáránleikans og átti þá við tiltekna bókmenntagrein sem varð til í Vestur-Evrópu upp úr stríði, Genet, Ionesco, Dürrenmatt þekkjum við úr þessu í tengslum við tilvistarspeki og tómhyggju eftirstríðsáranna.

Það er út í hött að telja að þessi fína bókmenntalega tilvísun ráðherrans, sem er nú ekki á bókmenntasviði í Stjórnarráðinu, jafngildi því að niðra Alþingi með þeim orðum sem forseti taldi sig hafa hér eftir honum.