139. löggjafarþing — 165. fundur,  16. sept. 2011.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 149/2009 um breytingu á XX. viðauka við EES-samninginn.

620. mál
[13:44]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Árni Þór Sigurðsson) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Til upplýsingar kemur það fram í málinu að markmiðið með tilskipuninni, eins og ég gat um áðan, er að vernda umhverfið og heilsu manna gegn skaðlegum áhrifum súrrar ákomu, ofauðgunar jarðvegs og áhrifum ósons við yfirborð jarðar. Auk þess er gerðinni ætlað að vinna að því langtímamarkmiði að halda loftmengun innan marka sem nauðsynleg eru til að koma í veg fyrir skaðleg áhrif á lífríkið og heilsu manna. Þau efni sem falla undir gildissvið tilskipunarinnar eru hér tilgreind en þau eru brennisteinsdíoxíð, köfnunarefnisoxíð, rokgjörn lífræn efnasambönd og ammoníak. Gildissvið tilskipunarinnar nær til losunar þessara efna af manna völdum frá uppsprettum á landi viðkomandi ríkja og innan efnahagslögsögu þeirra.

Stefnt var að því með þessari tilskipun að ná skammtímamarkmiðum fyrir árið 2010. Við erum sem sagt aðeins á eftir í að innleiða hana. Eins og ég gat um áðan er gert ráð fyrir frumvarpi til breytinga á lögum til þess að ná þeim markmiðum sem hér eru sett.

Gert er ráð fyrir að aðildarríkin útbúi sérstaka aðgerðaáætlun þar sem fram kemur hvernig þau hyggjast draga úr losun þannig að það samræmist þeim losunarmörkum sem fram koma í sérstökum viðauka með samningnum.

Ég tel því að það eigi nú að vera nokkuð ljóst hvað hér er á ferðinni og við höfum fjallað um þetta í utanríkismálanefnd og fengið kynningu á því. Það er samdóma álit allra nefndarmanna að mæla með því að tillagan verði samþykkt.