139. löggjafarþing — 165. fundur,  16. sept. 2011.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 85/2010 um breytingu á IX. viðauka við EES-samninginn.

647. mál
[14:50]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Árni Þór Sigurðsson) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um tillögu til þingsályktunar um staðfestingu sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 85/2010 um breytingu á IX. viðauka við EES-samninginn um fjármálaþjónustu.

Hér er verið að leita heimildar Alþingis til þess að staðfesta ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 85/2010, um breytingu á IX. viðauka um fjármálaþjónustu við EES-samninginn frá 2. maí 1992, en einnig fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/111/EB frá 16. september 2009 um breytingar á tilskipunum 2006/48/EB, 2006/49/EB og 2007/64/EB að því er varðar banka sem tengjast miðlægum stofnunum, tiltekna þætti eigin fjár, stórar áhættuskuldbindingar, fyrirkomulag eftirlits og krísustjórnun.

Framsetning þessarar tillögu telst að mati nefndarinnar í samræmi við 4. gr. reglna um þinglega meðferð EES-mála frá 1. október 2010.

Markmið þessarar reglugerðar er að takmarka það hversu mikla áhættu fyrirtæki geta tekið að því er varðar einn aðila og bæta áhættu- og krísustjórnun, sem og að efla eftirlit og samvinnu eftirlitsaðila yfir landamæri. Innleiðing tilskipunarinnar kallar á lagabreytingar hér á landi og fjalla frumvörp efnahags- og viðskiptaráðherra til laga um breytingu á lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, með síðari breytingum, og um greiðsluþjónustu um þetta efni. Frumvörpin eru nú til meðferðar í viðskiptanefnd.

Þá er fyrirhugað frumvarp efnahags- og viðskiptaráðherra um breytingar á lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, nr. 87/1998, með síðari breytingum, sem einnig mun fjalla um þetta efni. Eftir framlagningu mun það að öllu óbreyttu sömuleiðis koma til meðferðar í viðskiptanefnd.

Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt. Undir nefndarálitið rita Árni Þór Sigurðsson, Valgerður Bjarnadóttir, Birgitta Jónsdóttir, Bjarni Benediktsson, Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, Helgi Hjörvar, Ólöf Nordal og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.