139. löggjafarþing — 165. fundur,  16. sept. 2011.

samvinna milli vestnorrænu ríkjanna um stjórn veiða úr sameiginlegum fiskstofnum.

480. mál
[14:57]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Árni Þór Sigurðsson) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um tillögu til þingsályktunar um samvinnu milli vestnorrænu ríkjanna um stjórn veiða úr sameiginlegum fiskstofnum. Þetta er þingsályktunartillaga sem þingmannanefnd Vestnorræna ráðsins flytur og utanríkismálanefnd Alþingis hefur haft til umfjöllunar.

Með þessari tillögu er lagt til að Alþingi feli ríkisstjórninni að koma á samvinnu við Færeyjar og Grænland um stjórn veiða úr sameiginlegum fiskstofnum og skori jafnframt á hana að vinna með löndunum tveimur að undirbúningi viðræðna og samstarfs við aðrar fiskveiðiþjóðir á Norður-Atlantshafi um stjórn veiða úr sameiginlegum fiskstofnum.

Þessi tillaga byggist á ályktun nr. 4/2010 sem samþykkt var á ársfundi Vestnorræna ráðsins í ágúst 2010 í Tasiilaq á Grænlandi en þar er áskorun þessa efnis beint til ríkisstjórnar Íslands og landsstjórna Færeyja og Grænlands.

Nefndin leggur til breytingu á orðalagi þannig að í stað orðanna „koma á“ í tillögugreininni komi orðið „efla“, en tillögugreinin hefst þannig, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að koma á samvinnu við Færeyjar og Grænland …“

Nefndin leggur til að hér verði sagt að Alþingi álykti að fela ríkisstjórninni að „efla“ samvinnu við Færeyjar og Grænland. Það er gert vegna þeirra upplýsinga sem komu fram við afgreiðslu málsins að þessi samvinna er nú þegar til staðar, en talið er brýnt að hún verði efld.

Það er því breytingartillaga í nefndarálitinu, sem liggur fyrir frá utanríkismálanefnd, og þannig breyttri leggur nefndin til að þessi þingsályktunartillaga verði samþykkt. Undir nefndarálitið rita Árni Þór Sigurðsson, Valgerður Bjarnadóttir, Birgitta Jónsdóttir, Bjarni Benediktsson, Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, Helgi Hjörvar, Ólöf Nordal og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.