139. löggjafarþing — 165. fundur,  16. sept. 2011.

samvinna milli ríkissjónvarpsstöðva vestnorrænu ríkjanna.

481. mál
[15:01]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Hér er til umræðu tillaga til þingsályktunar um samvinnu milli ríkissjónvarpsstöðva vestnorrænu ríkjanna. Eins og fram hefur komið í greinargerð er tillagan lögð fram á grundvelli ályktunar Vestnorræna ráðsins. Þessi tillaga var rædd í utanríkismálanefnd og þar gerði ég fyrirvara við stuðning minn við málið. Þann fyrirvara kem ég upp til að ræða stuttlega en ég vil láta það koma skýrt fram að efnislega finnst mér erindið sem vestnorræna ráðið hefur með þessari tillögu komið á framfæri jákvætt og uppbyggilegt. Mér þætti mjög æskilegt ef því markmiði sem stefnt er að með tillögunni væri hægt að ná fram, en fyrirvari minn lýtur að því að setja Ríkisútvarpinu eða ríkisstöðvunum einhver fyrirmæli varðandi sína dagskrárgerð.

Ég verð líka að segja alveg hreint út að tillagan gerir ráð fyrir því að ráðherrann sé hvattur t.d. til að auka framboð á fréttum frá Færeyjum og Grænlandi með því að útvíkka og styrkja samstarf RÚV við hinar vestnorrænu sjónvarpsstöðvarnar. Að mínu áliti erum við komin alveg út á ystu nöf þess sem við getum sett ráðherranum fyrir í þessu efni. Við erum líka hugsanlega komin út fyrir þau mörk sem æskilegt er að gildi í samskiptum þings og ráðherra annars vegar og ráðherra og síðan yfirstjórnar Ríkisútvarpsins hins vegar.

Þrátt fyrir þessa fyrirvara mína við að þingið eigi að hafa skoðun á því að það sé grænlenskt fréttaefni í Ríkisútvarpinu, ég hef sem sagt mikinn fyrirvara á því, vil ég samt sem áður vera á þessu nefndaráliti til að undirstrika áhuga minn á því að efla norrænt samstarf á hverju því sviði sem hægt er að gera það, þar með talið í fjölmiðlum, að svo miklu leyti sem það er hægt með raunhæfum hætti. En tillagan er varla raunhæf. Þetta vildi ég hafa sagt og hef nú komið því á framfæri við þessa umræðu.