139. löggjafarþing — 165. fundur,  16. sept. 2011.

mótun þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland.

723. mál
[17:23]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ef hv. þingmaður á við varnir í hinum hefðbundna skilningi þess orðs vísa ég til þess að hún og hennar flokkur skildu eftir samkomulag við Bandaríkin sem einmitt gerir ráð fyrir því að ef til þess dregur muni þau í krafti tvíhliða samkomulagsins frá 1951 bregðast til varna. Mjög fáir hafa séð það skipulag, ekki sá ég það á þeim tíma sem ég sat í utanríkismálanefnd en ég hef reyndar kynnt mér það síðan og ég hef séð það. Ég er ekkert ósáttur við það. Danir komust að nákvæmlega sömu niðurstöðu og við varðandi þeirra eigið öryggi, að það steðjaði engin hernaðarleg ógn að þeirra ríki.

Þegar hv. þingmaður gefur sér það fyrir fram að það verði erfitt að ná breiðri samstöðu vil ég biðja hv. þingmann um að skoða söguna frá stofnun lýðveldisins. Þá kemst hún að því að eitt af því sem er rauður þráður í gegnum samlyndi eða ósamlyndi íslenskra stjórnmálaflokka er þrátt fyrir allt breið samstaða um grunnþætti í varnar- og öryggismálum. Sú samstaða hefur haldist í grófum dráttum án tillits til þess hvernig ríkisstjórn er skipað á hverjum tíma. Þær nýju ógnir sem við okkur blasa og eru kannski ekki endilega af hernaðarlegum toga, það kann að vera að hægt sé að bregðast við þeim t.d. í samstarfi við þær herdeildir eða flotadeildir sem hv. þingmaður réttilega gat um hér í upphafi ræðu sinnar að ýmsar þjóðir sem vilja nýta norðurheimskautssvæðið sem tilheyrir þeim í framtíðinni eru einmitt að koma sér upp.

Ég segi þetta vegna þess að eitt af því sem var fleinn í holdi hv. þingmanns, eins og ég skildi mál hennar, var sú skoðun mín að það hefði dregið úr hernaðarlegri spennu á norðurheimskautssvæðinu. Ég geri mér grein fyrir því að þessar þjóðir eru færa meira af hernaðarlegu atgervi norður eftir, en ég vil samt leyfa mér að halda því fram að norðurheimskautið sé lágspennusvæði og það séu ekki neinar blikur á lofti sem benda til þess að það mætti flokka það undir háspennusvæði eða það sem segir á ensku „high tension“. (Forseti hringir.) Ég held ekki.