139. löggjafarþing — 165. fundur,  16. sept. 2011.

mótun þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland.

723. mál
[17:25]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er alveg rétt og það eru allir mjög uppteknir af því þegar rætt er um þessi mál og um öryggi á norðurslóðum að hafa það einmitt þannig. Og frasi forsætisráðherra Noregs og utanríkisráðherra „High North – low tension“ sem mætti þýða yfir á íslensku norðurslóðir – lágt spennustig, eins og hæstv. utanríkisráðherra vísaði í áðan, er það sem allir eru að stefna að. Við megum samt ekki og getum ekki afgreitt þetta svona einfalt frá okkur.

Ég hef nefnt hér áður í ræðustól samskipti mín við rússneskan þingmann á NATO-þingi í fyrra þegar ég var að flytja skýrslu um þessi mál eða skýrslu um öryggismál á norðurslóðum og hlutverk NATO þar. Þá gerði hann athugasemd við það þegar ég var að gera athugasemd við Rússaflugin inn í lofthelgi okkar, og sagði mjög mektugur: Þetta er bara „pilot training“ — þjálfun flugmanna. Ég sagði: „Heyrðu, allt í lagi, ef það þarf að þjálfa þessa flugmenn er þá ekki bara fínt að hafa kveikt á radarnum þannig að við séum ekki í hættu með okkar farþegaflugvélar?“ En af hverju eru þeir ekki með kveikt á radarnum? Jú, af því að þeir vilja ekki sjást. Af hverju vilja þeir ekki sjást? Er það af því að þeir eru bara að leika sér þarna? Nei, auðvitað er þetta liður í hernaðarlegri uppbyggingu, hernaðarlegri þjálfun. Þessu þurfum við að hafa augun opin fyrir.

Samkomulagið við Bandaríkin um varnir okkar er mjög mikilvægt. Ég vil hafa öryggis- og varnarmál þjóðarinnar í lagi og ég mundi ekki, til þess að ná breiðri samstöðu allra stjórnmálaflokka á Íslandi, fórna hvorki varnarsamningnum við Bandaríkin né aðild okkar að Atlantshafsbandalaginu fyrir það. Það er það sem ég er að tala um. Við verðum að átta okkur á því. Hæstv. utanríkisráðherra talar um (Forseti hringir.) rauðan þráð, samstöðu í utanríkismálum. Ég er því allsendis ósammála. Við erum búin að takast á um þessi mál, aðildina að Atlantshafsbandalaginu og einmitt varnar- og (Forseti hringir.) öryggismálin, í pólitíkinni á Íslandi alveg frá því að við gengum í Atlantshafsbandalagið. (Gripið fram í.)