139. löggjafarþing — 165. fundur,  16. sept. 2011.

mótun þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland.

723. mál
[17:27]
Horfa

Frsm. meiri hluta utanrmn. (Árni Þór Sigurðsson) (Vg):

Frú forseti. Ég vil aðeins koma hér öðru sinni í umræðu um þetta mál í kjölfar ræðu hv. þm. Ragnheiðar Elínar Árnadóttur. Ég er þeirrar skoðunar að mjög mikilvægt sé að horfast í augu við það að gríðarlega miklar breytingar í alþjóðamálum hafa orðið á undanförnum árum, ekki síst á síðustu tveimur áratugum eða svo með endalokum kalda stríðsins og reyndar auðvitað líka pólitískum og efnahagslegum hræringum í okkar heimshluta, og það sé eðlilegt að við horfum á það og förum í endurskoðun á okkar öryggis- og varnarmálastefnu.

Það er rétt sem kom fram í tveggja manna tali hér við hliðina á ræðustólnum rétt áðan milli hæstv. utantanríkisráðherra og hv. þm. Ragnheiðar Elínar Árnadóttur að það hafa verið skiptar skoðanir milli stjórnmálaflokka og hreyfinga á Íslandi um áratugaskeið. Ég tel sjálfur að það væri ákjósanlegt ef það næðist þverpólitísk samstaða um megináherslur í utanríkis- og varnarmálum Íslands. Það þýðir ekki að menn þurfi endilega að vera sammála um alla hluti en ég tel það ákjósanlegt að það geti orðið góð pólitísk samstaða um megináherslurnar. Mér finnst það alla vega tilraunarinnar virði, eins og hæstv. utanríkisráðherra leggur til í þingsályktunartillögu sinni, að sett verði á laggirnar þverpólitísk nefnd til að fara í saumana á þeim málum. Það verður auðvitað bara að koma í ljós í þeirri vinnu hvort menn verða sammála um einhverja tiltekna þætti og þá hverja eða ekki.

Ég vil líka segja að sá tónn og niðurstaðan í nefndaráliti minni hluta utanríkismálanefndar, sem hv. þm. Ragnheiður Elín Árnadóttir gerði hér grein fyrir, finnst mér ekki alveg hafa komið fram í umræðunni á vettvangi nefndarinnar. Þar voru menn jákvæðir gagnvart þessari tillögu, auðvitað voru sjónarmið um það hvort tekið væri alveg rétt á öllum hlutum og svona, og það kom fram við afgreiðslu úr nefndinni að enda þótt fulltrúar Sjálfstæðisflokksins, eins flokks, væru ekki með á nefndaráliti meiri hluta utanríkismálanefndar mundu þeir ekki leggjast gegn afgreiðslu málsins. Ég hefði frekar átt von á því að í sérstöku nefndaráliti þeirra kæmu fram áherslur þeirra en ekki beinlínis andstaða við að málið væri afgreitt hér og nú. Það kemur mér á óvart og ég harma það. Ég hefði talið ákjósanlegt að við hefðum í meginatriðum getað orðið samstiga. En kannski er þetta bara til vitnis um að hinar pólitísku línur, ef svo má segja, í þessum málum, íslenskum stjórnmálum, séu að breytast og það verði kannski til framtíðar aðrir stjórnmálaflokkar, þrír eða fjórir, sem eigi meiri samleið um áherslur í þessum málum en verið hefur undanfarna fimm áratugi eða svo. Það er erfitt að spá fyrir um það. Í öllu falli finnst mér ákjósanlegt og rétt af okkur að ráðast í þessa vinnu og sjá hvert hún leiðir okkur. Sú tillaga sem hér er til umfjöllunar gerir ráð fyrir því að það sé þverpólitískur hópur sem fer í þá vinnu, tekur á þeim álitamálum sem lýst er í tillögunni og einnig í breytingartillögu utanríkismálanefndar og í nefndaráliti. Ég bind því talsverðar vonir við að það verði hægt að taka á þessum málum með heildstæðum hætti og helst í sem allra breiðastri sátt.

En það er rétt hjá hv. þm. Ragnheiði Elínu Árnadóttur að það verða áreiðanlega skiptar skoðanir um hluti eins og afstöðu til hernaðarbandalaga og það er ekkert óeðlilegt að í samfélaginu og í stjórnmálum séu ólík viðhorf til slíkra hluta. Mér finnst fínt ef þau koma saman á vettvangi eins og nefndin um mótun þjóðaröryggisstefnu á að vera og menn reiða fram sín rök og sín sjónarmið og takast á, en vonandi gætu menn, eins og ég segi, komist að samkomulagi um meginlínurnar jafnvel þó að einhverjir kynnu að hafa fyrirvara eða bóka sérstaka afstöðu til einstakra þátta. Það verður bara að koma í ljós í vinnunni.