139. löggjafarþing — 165. fundur,  16. sept. 2011.

fæðingar- og foreldraorlof.

748. mál
[17:46]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir það með hv. þm. Pétri H. Blöndal að margt í frumvarpinu er mjög jákvætt. Ég vil einnig taka undir með hv. þingmanni varðandi nefndarálitið. Þeir þingmenn sem ekki eru á því en voru engu að síður við afgreiðslu málsins — það væri mjög skynsamlegt að taka það fram á meirihlutanefndarálitum.

Ég vildi koma hingað upp af því að ég ætlaði í andsvar við hv. þm. Sigríði Ingibjörgu hér áðan. Ég vildi bara koma því að í umræðunni að ég styð þær fjölmörgu góðu breytingar sem frumvarpið hefur í för með sér. En ég mun ekki styðja það ákvæði sem hv. þingmaður kom inn á áðan og snýr að þessum athugasemdum frá ESA af sömu ástæðu og hv. þm. Pétur H. Blöndal, að eðlilegast væri að láta á það reyna. Auk þess sem það er að mínu viti mjög óeðlilegt að við séum að setja inn í lög matskennt ákvæði sem felur í sér að Vinnumálastofnun eigi með einhverjum óljósum hætti að meta hvort aðilar hafi verið á innlendum eða erlendum vinnumarkaði og engar frekari reglur eða skýringar á því hvernig eigi að meta það eða til hvers skuli nákvæmlega horft í því eða hvar mörkin skuli dregin.

Að öðru leyti tek ég undir margar þær athugasemdir sem komu fram í ræðu hv. þingmanns.