139. löggjafarþing — 165. fundur,  16. sept. 2011.

fæðingar- og foreldraorlof.

748. mál
[17:48]
Horfa

Frsm. meiri hluta fél.- og trn. (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég kem hingað upp vegna ummæla hv. þm. Péturs H. Blöndals um skerðingar á fæðingarorlofi og áhrif þess. Ég vil í fullri vinsemd benda þingmanninum á skýrslu sem við í félags- og tryggingamálanefnd óskuðum sameiginlega eftir til að fá upplýsingar um áhrif þessara skerðinga á töku fæðingarorlofs. Mér skilst að henni verði dreift hér í þinginu nú í kvöld og kannski tími til kominn. Þar getum við farið yfir hvaða áhrif þær skerðingar sem við í meiri hlutanum höfum svo sannarlega staðið fyrir hafa haft á töku fæðingarorlofs. Ég verð að segja það og hef margoft sagt það í þessum ræðustól að það var ekki skemmtilegt að skerða fæðingarorlofið en það var gert á þeim forsendum að það var langríkulegasta tryggingakerfið okkar og því var eðlilegt að það tæki á sig hlutfallslega mesta skerðingu. Þó að það kunni að hljóma ankannalega stend ég með því að það hafi verið eðlileg ráðstöfun í stað þess að skerða til dæmis atvinnuleysisbætur sem eru langtum lélegri tryggingar.

Ég tel mjög mikilvægt að félags- og tryggingamálanefnd eða ný velferðarnefnd, hverjir svo sem í henni munu sitja, fari mjög ítarlega í saumana á þessari skýrslu og kanni hvaða áhrif þessar skerðingar hafi haft, fari í grundvallarumræðu um fæðingarorlofið og að við ræðum við velferðarráðherra um það að skipaður verði þverpólitískur hópur um það að endurskoða fæðingarorlofslögin og ákveða hvernig við ætlum að auka fjárveitingar til kerfisins, hvort ekki standi til að lengja fæðingarorlofstímann og í hvaða tímasettu skrefum við treystum okkur til að gera það. Fyrir mér skiptir það alla vega mjög miklu máli að við sjáum fram á að fæðingarorlofið verði aftur öflugt tæki til að tryggja börnum samvistir við foreldra sína og jafnrétti á vinnumarkaði og heimili.