139. löggjafarþing — 165. fundur,  16. sept. 2011.

húsnæðismál.

100. mál
[17:52]
Horfa

Frsm. meiri hluta fél.- og trn. (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti meiri hluta félags- og tryggingamálanefndar um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 44/1998, um húsnæðismál, með síðari breytingum.

Nefndin fékk fjölda gesta á sinn fund sem getið er um í nefndaráliti og eins bárust umsagnir um málið.

Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um húsnæðismál þess efnis að Íbúðalánasjóði verði falið það verkefni að bjóða íbúðarhúsnæði sem hann hefur leyst til sín til kaupleigu í stað þess að leigja það út eins og nú er kveðið á um. Þá verði sjóðnum heimilt að veita óverðtryggð lán. Auk þess er lögð til með ákvæði til bráðabirgða tímabundin breyting á lánsheimildum þannig að sjóðnum verði heimilt að veita að uppfylltum nánari skilyrðum lán til endurbóta sem geti numið allt að 90% af kostnaði við framkvæmdir þó svo að fjárhæð lána sem þegar eru áhvílandi sé hærri en lögbundin hámarksfjárhæð lána Íbúðalánasjóðs svo fremi að samanlögð fjárhæð lána verði ekki hærri en nemur fasteignamati eignar.

Meiri hlutinn telur ljóst að framangreint ákvæði til bráðabirgða getur aukið áhættu sjóðsins. Í kostnaðarumsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytis kemur fram að engin greining hafi farið fram á þessu atriði og því ekki forsendur hér til að meta breytingu á áhættunni til fjár. Með vísan til þessa telur meiri hlutinn ekki unnt að samþykkja þessa breytingu að svo stöddu og leggur til að ákvæðið falli brott.

Hvað varðar heimild Íbúðalánasjóðs til þess að bjóða í fasteignir í eigu sjóðsins telur meiri hlutinn þennan hluta frumvarpsins ekki nægilega vel útfærðan og að hér sé um of mikið framsal löggjafarvalds að ræða. Einnig kom fram á fundum nefndarinnar að ekki lægi fyrir hvernig ætti að útfæra kaupleigukerfið. Leggur meiri hlutinn til að ákvæðið falli brott en telur jafnframt ástæðu til að áfram verði skoðaðir möguleikar Íbúðalánasjóðs til þess að bjóða íbúðir í eigu sjóðsins til kaupleigu.

Meiri hlutinn telur mikilvægt að veita Íbúðalánasjóði heimild til að gefa út óverðtryggða skuldabréfaflokka og þar með að veita óverðtryggð lán, samanber 2. gr. frumvarpsins, enda geti þessi heimild aukið valmöguleika lántakenda. Meiri hlutinn áréttar þó að útfærslan á því hvernig Íbúðalánasjóður hagar útgáfu og fjármögnun slíkra lána er eftir. Hér er því einungis stigið fyrsta skref í átt að óverðtryggðum útlánum sjóðsins en síðar kemur í ljós hvaða kjör bjóðast á markaði og þar með hvort hér sé um raunhæfa leið að ræða fyrir fólk til að fjármagna íbúðarkaup sín án þess að taka þurfi mikla áhættu hvað varðar sveiflur í greiðslubyrði.

Samkvæmt 4. mgr. 21. gr. húsnæðislaganna er kveðið á um að vextir skuli vera óbreytanlegir á lánstíma. Til að lágmarka afföll og áhættu Íbúðalánasjóðs telur meiri hlutinn þó mikilvægt að vextir óverðtryggðra útlána sjóðsins geti verið breytilegir. Leggur meiri hlutinn því til breytingu þess efnis en áréttar að sú breyting mun einungis ná til óverðtryggðra útlána sjóðsins. Verðtryggð lán hans verða áfram á föstum óbreytanlegum vöxtum. Meiri hlutinn telur þó ekki rétt að kveða á um að óverðtryggð lán skuli ávallt vera með breytilegum vöxtum heldur setji Íbúðalánasjóður reglur um vexti af óverðtryggðum lánum sínum enda hlýtur vaxtastefna hans að fara eftir fjármögnun sjóðsins á þessum skuldabréfaflokkum.

Það er skýr vilji meiri hlutans að Íbúðalánasjóður nýti sér þá heimild sem honum er veitt með frumvarpinu til að kanna möguleika á útgáfu óverðtryggðra skuldabréfaflokka og eftirspurn eftir þeim.

Meiri hlutinn áréttar að komi til óverðtryggðra lánveitinga verði sjóðurinn að vanda mjög upplýsingagjöf til lántaka. Verði vextir slíkra lána breytilegir felur það í sér áhættu fyrir lántakendur þar sem greiðslubyrðin getur breyst umtalsvert í kjölfar vaxtabreytinga. Mikilvægt er að Íbúðalánasjóður stundi ekki lánveitingar sem fela í sér mikla áhættu fyrir lántakendur.

Meiri hluti nefndarinnar leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi breytingum, þ.e. að 1. gr. laganna og ákvæði til bráðabirgða falli brott. Þá er bætt við ákvæði varðandi möguleika til breytilegra vaxta á útlánum Íbúðalánasjóðs ef um óverðtryggð lán er að ræða og síðan er gerð breyting á gildistökuákvæði laganna.

Undir nefndarálitið rita Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, Pétur H. Blöndal, Guðmundur Steingrímsson, Unnur Brá Konráðsdóttir, Þórunn Sveinbjarnardóttir og Lilja Rafney Magnúsdóttir.

Jónína Rós Guðmundsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.