139. löggjafarþing — 165. fundur,  16. sept. 2011.

húsnæðismál.

100. mál
[18:10]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Pétri H. Blöndal fyrir hans ræðu. Hann hefur talsverða reynslu af fjármálamörkuðum og meiri innsýn og þekkingu en margir aðrir í þessum sal. En ég glöggvaði mig kannski ekki nægilega vel á því hvort þingmaðurinn teldi það vera framfaraskref að Íbúðalánasjóður byði hin óverðtryggðu kjör og þá kannski ekki síður hvort hann telji að það hafi almennt reynst farsælt fyrir okkur að vera með svo stóran hluta af skuldum heimilanna í verðtryggðu formi.

Ég skil áhyggjur hans af sparifjáreigendunum en telur hann ekki að þær miklu álögur sem þessu kerfi hafa fylgt fyrir heimilin í landinu hafi ekki skilað hagstæðum vaxtakjörum til fólks á húsnæðislánum og annað slíkt, og hvort hann telji ekki almennt að æskilegra væri að við hefðum fyrirkomulag húsnæðislána okkar meira eins og hjá venjulegum þjóðum. Ég nefni Þjóðverja sem dæmi, þeir eru sérfræðingar miklir í efnahagsmálum og hv. þingmaður þekkir vel til hvernig þeir halda á fjármálum og skipuleggja sín fjármálakerfi.