139. löggjafarþing — 165. fundur,  16. sept. 2011.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

704. mál
[19:06]
Horfa

Frsm. efh.- og skattn. (Helgi Hjörvar) (Sf):

Virðulegi forseti. Hv. alþingismenn geta kynnt sér nefndarálitið og breytingartillögurnar sem liggja fyrir á þingskjölum. Ég vil geta um breytingartillögur sem ég mun flytja við 3. umr. málsins á morgun og unnar hafa verið undanfarna daga.

Í meginatriðum lýtur þetta mál að þrennu og ég ætla að fara hratt yfir það því að við erum að reyna að ljúka umræðu um fjölda mála á síðustu dögum þessa þings.

Í fyrsta lagi er um að ræða hæfi stjórnarmanna í lífeyrissjóðum. Hér er verið að endurskoða hæfiskröfur til þeirra eins og annarra stjórnenda í samfélaginu í framhaldi af efnahagshruninu og var þó gert ráð fyrir því að hæfiskröfur til þeirra væru með nokkrum undantekningum frá þeim meginreglum sem gilda almennt á fjármálamarkaði. Nefndin fellst ekki á tvær af þeim þremur undanþágum, 3. og 5., og telur að meginsjónarmiðið eigi að vera það að stjórnarmenn í lífeyrissjóðunum uppfylli sömu hæfiskröfur og aðrir og þurfi ekki að sitja til að mynda í fleiri en einni stjórn hver en fellst þó á að út frá lýðræðissjónarmiðum sé nauðsynlegt að hafa ákveðnar heimildir um frávik frá þeim meginreglum vegna eðlis lífeyrissjóðanna sem ættu að vera lýðræðislegar stofnanir.

Í öðru lagi er leitað aukinna heimilda til fjárfestingar í óskráðum félögum og kvöðum létt af þeim fjárfestingum, en nefndin hafnaði að mestu leyti að gera þær breytingar nú. Ástæða þess er að rannsókn á því hvað gerðist í lífeyrissjóðunum stendur yfir og munu niðurstöður hennar verða kynntar síðar á þessu ári, eftir tvo mánuði hygg ég. Við teljum að það sé óskynsamlegt og óráðlegt að auka heimildir sjóðanna til kaupa í óskráðum félögum fyrr en fyrir liggur niðurstaða úr þessari rannsókn og þau tilmæli um breytingar á fjárfestingarheimildum sem leiða af þeim rannsóknarniðurstöðum og það eigi að gera með heildstæðum hætti.

Að síðustu er í málinu, og mun einkum koma fram í breytingartillögum á morgun, verið að framlengja heimildir til útgreiðslu séreignarsparnaðar. Þeirri heimild lauk 1. apríl á þessu ári og hefur komið í ljós að talsvert af fólki sem á enn í fjárhagserfiðleikum þarf áfram á þessari heimild að halda. Við opnum hana því frá 1. október næstkomandi til 1. júlí á næsta ári og hækkum þá fjárhæð sem fólk getur tekið út úr séreignarsjóðunum í 6.250.000 kr. úr 5 millj. kr. Þessa heimild hafa nú þegar 56 þús. Íslendingar nýtt sér og tekið út rétt liðlega 60 milljarða kr. eða um 1 millj. kr. hver sem hefur skipt marga verulegu máli til að komast í gegnum þau erfiðu ár sem núna eru að baki. Við sjáum vöxt í hagkerfinu á þessu ári og spár eru um vöxt í hagkerfinu á komandi árum svo að vonandi þarf fólk ekki á þessari heimild að halda í mörg missiri enn, en sjálfsagt er að framlengja hana að þessu sinni.