139. löggjafarþing — 165. fundur,  16. sept. 2011.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

704. mál
[19:11]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég skrifa undir nefndarálitið með fyrirvara og fyrirvari minn beinist eiginlega að tvennu.

Í fyrsta lagi hef ég mikinn fyrirvara við þá aðferð að framlengd verði heimild til að taka út séreignarsparnað. Mér finnst eins og hæstv. ríkisstjórn sé með þessu að eyðileggja þennan sparnað sem hefur haft mikið að segja fyrir heimilin. Það sem meira er getur þetta á vissan hátt eyðilagt sparnað sem er í vari fyrir uppboðum og öðru slíku og gert það að verkum að hann tapast ef menn taka fyrst út séreignarsparnaðinn, borga niður skuldir og svo geta þeir ekki borgað meira og þá er sparnaðurinn eyðilagður.

Í öðru lagi er ég með fyrirvara sem ég flyt breytingartillögu við. Hér er fjallað um stjórnir og stjórnarsetur. Ég hef mjög lengi, frú forseti, haft þá skoðun að sjóðfélagar eigi að koma meira að stjórn. Lífeyrissjóðirnir voru settir á laggirnar með lagasetningu á Alþingi 1974 og aftur 1980 þar sem í fyrri lagasetningunni var öllum launþegum rétt og skylt að borga iðgjald í lífeyrissjóð og í seinni lagasetningunni voru allir sjálfstætt starfandi líka skyldaðir til að borga í lífeyrissjóð. Þetta var lagasetning sem gerði það að verkum að lífeyrissjóðirnir eru hluti af almenna tryggingakerfinu, hinu félagslega kerfi, vegna þess að allir landsmenn voru skyldaðir til að borga í lífeyrissjóð og áttu þar að eignast tekjuháð lífeyrisréttindi sem áttu svo að létta á almannatryggingum þegar fram liðu stundir. Um leið var ekki tekið á þeim þáttum hver ætti lífeyrissjóðina og hver stjórnaði þeim.

Nú eru lífeyrissjóðirnir með gífurlegar eignir, 2 þús. milljarða sem er eins og ég gat um fyrr í dag 15 milljónir á hverja einustu fjölskyldu, mikið meira en fólk á almennt í húsinu sínu. Þetta er eign heimilanna í landinu því að það eru heimilin, launþegarnir, sjóðfélagarnir, sem eiga réttindin. Aðrir eiga ekki réttindi í lífeyrissjóði og eignir standa á móti réttindunum þannig að í gegnum réttindin eiga sjóðfélagarnir alla þessa peninga, enginn annar. Þess vegna stendur í 1. gr.: „Lífeyrissjóður er eign sjóðfélaga sinna.” Afskaplega einfalt og ég vona að allir hv. þingmenn greiði því atkvæði því að maður spyr sig: Hver annar ætti að eiga lífeyrissjóðina?

Þegar svo miklir peningar koma saman þarf að huga að því hver stjórnar þeim. Tveir lífeyrissjóðir eru með lýðræði þar sem sjóðfélagar kjósa stjórn en öllum hinum er stýrt af fulltrúum aðila vinnumarkaðarins, SA og ASÍ. Þetta er í rauninni hryggjarstykkið í þeim gífurlegu völdum sem þessir aðilar hafa á Íslandi og hafa þeir aldrei verið kosnir til þeirra starfa, ekki af almenningi. Í gegnum stjórnir lífeyrissjóðanna er þeim veitt mjög mikið efnahagslegt vald til að kaupa og selja fyrirtæki, ráða forstjóra og allt sem tengist því. Það er nefnilega heilmikið vald og hagsmunir fólgnir í að stýra 2 þús. milljörðum. Hér er lagt til að sjóðfélagarnir kjósi stjórn.

1. gr. fjallar um að lífeyrissjóðir séu eign sjóðfélaganna til að kristalla það. Síðan eiga sjóðfélagar að kjósa stjórn og er meira að segja lagt til hvernig sú kosning gæti verið. Ég treysti sjóðfélögum ágætlega til að kjósa stjórn, vinna lýðræðislega að því að finna gæslumenn fyrir það mikla fé sem þeir eiga og eru mjög háðir. Sjóðfélagar hafa mikla hagsmuni af því að ekki sé farið illa með þetta fé.

Í hruninu varð mikil eignarýrnun hjá lífeyrissjóðunum og stendur reyndar yfir rannsókn á því sem lífeyrissjóðirnir hafa annars vegar sett sjálfir af stað en ég ætla ekki að fara nánar út í það. En hrunið varð meira hjá lífeyrissjóðunum en kemur fram. Af hverju? Vegna þess að þeir færa eignir sínar í krónum og krónan hefur rýrnað um helming frá því sem áður var. Erlendar eignir sjóðanna sem voru yfir 40% héldu nokkurn veginn verðgildi sínu í erlendri mynt og hafa þar af leiðandi haldið uppi eignum lífeyrissjóðanna þannig að það varð miklu meira tap hjá lífeyrissjóðunum en kemur fram í efnahagsreikningum ef maður mundi meta það í evrum sem væri eðlilegt. Það hefur líka komið fram í umræðunni um sparnað af sparifé að tapið varð meira.

Ég ætla ekki að tefja umræðuna mikið en ég vænti þess að allir hv. þingmenn greiði atkvæði með því annars vegar að lífeyrissjóðir séu eign sjóðfélaga sinna, annaðhvort væri, og hins vegar að sjóðfélagar geti kosið í stjórn, annað er dálítið ankannalegt. Sjóðfélagi er skyldaður til að borga mikið fé, 12% af launum borgar sjóðfélaginn í lífeyrissjóð, reyndar í því formi að atvinnurekandinn borgar 8% og sjóðfélaginn 4% en það er í reynd sjóðfélaginn sem borgar hvort tveggja því að það mætti hækka laun allra landsmanna um 8% og þeir yrðu látnir borga 12% eftir sem áður í lífeyrissjóð og ekkert mundi breytast sem segir að launakostnaður atvinnurekenda eru laun starfsmannsins. Ég lít svo á að 12% af launum Íslendinga renni í lífeyrissjóð. Þetta eru miklir fjármunir. Ég vil að sjóðfélaginn geti fylgt þessu mikla fé eftir og gætt þess og haft hönd í bagga með því hverjir veljist til að ávaxta það.