139. löggjafarþing — 165. fundur,  16. sept. 2011.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

19. mál
[19:21]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og skattn. (Helgi Hjörvar) (Sf):

Virðulegur forseti. Hér er lítið mál sem hefur verið flutt nokkrum sinnum af þeim sem hér stendur og tveimur öðrum þingmönnum ágætum. Það hefur hlotið umfjöllun í efnahags- og skattanefnd og afgreiðslu af hálfu þingmanna allra flokka í nefndinni, en hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur þó minnihlutaálit um málið.

Auk mín eru á nefndarálitinu hv. þingmenn Magnús Orri Schram, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, með fyrirvara, Tryggvi Þór Herbertsson, Birkir Jón Jónsson og Lilja Mósesdóttir.

Þetta lýtur að því að fella úr gildi bann við því að lífeyrissjóðir eigi íbúðarhúsnæði. Það felur ekki annað í sér en það að lífeyrissjóðum er þá ekki lengur óheimilt að lögum að eiga íbúðarhúsnæði. Það er í sjálfu sér ekkert sem mælir með því að löggjafinn banni sjóðunum það. Með því er löggjafinn ekki að segja að lífeyrissjóðirnir eigi að fjárfesta í íbúðarhúsnæði. Það er einfaldlega þeirra ákvörðun hvort og hvernig þeir vilja fjárfesta í því en lífeyrissjóðir í ýmsum löndum sem hafa haldið vel á sínum efnahagsmálum, svo sem í Þýskalandi, hafa talið það hagfellt fyrir sig að fjárfesta verulega í íbúðarhúsnæði. Auðvitað er kannski farsælast að sjóðirnir eigi aðild að félögum um slíkan rekstur en það skyti nokkuð skökku við ef sjóðirnir ættu aðild að félögum um rekstur íbúðarhúsnæðis þegar blátt bann væri við því í lögum að þeir ættu íbúðarhúsnæði. Því fer best á því að fella bann þetta niður að áliti okkar sem að nefndarálitinu stöndum og einfaldlega heimila sjóðunum að eiga í íbúðarhúsnæði þó að þeirra sé síðan ákvörðun um hvort og að hve miklu leyti þeir vilja gera það, enda ekki okkar stjórnmálamanna að segja þeim fyrir um í hverju þeir eigi að fjárfesta og í hverju ekki.