139. löggjafarþing — 165. fundur,  16. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[20:08]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Þegar þetta frumvarp fór frá ríkisstjórninni á sínum tíma, lýsti ég því yfir að ég hefði fyrirvara á stuðningi mínum við málið. Ég ítrekaði þann fyrirvara í þingræðu í gær og jafnframt að ég hef gagnrýnt þann hugmyndagrunn sem þetta frumvarp að hluta til byggir á og hvetur til aukinnar miðstýringar innan stjórnsýslunnar. Það er nokkuð sem ég er mjög ósáttur við.

Frumvarpið hefur hins vegar tekið ákveðnum breytingum í umræðunni og fyrirhugaðar eru enn meiri breytingar á því. Ég verð að segja að eftir því sem málið hefur þróast og þroskast hefur dofnað yfir fyrirvara mínum. Ég er ekki að fullu sáttur við málið, alls ekki, síður en svo. En ég vildi (Forseti hringir.) gera þingheimi grein fyrir því að ég mun ekki standa í vegi fyrir því að frumvarpið verði að lögum.