139. löggjafarþing — 165. fundur,  16. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[20:23]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Nú sit ég ekki í allsherjarnefnd og hef ekki hlýtt á þær rökræður sem þar fóru fram en ég verð þó að segja að það kemur mér afar spánskt fyrir sjónir að gerð sé krafa um að fært sé til bókar það sem einstakir ráðherrar segja í ríkisstjórn um mál sem þar eru til umfjöllunar líkt og þeir ættu þar sæti í fjölskipuðu stjórnvaldi. Það er ríkisstjórnin að sjálfsögðu alls ekki. Það er því undarleg tillaga að færa eigi sérstaklega til bókar hvernig einstakir ráðherrar tjá sig um þau mál sem aðrir ráðherrar hafa ýmist lagt fram eða mælt fyrir í ríkisstjórninni.

Mér finnst þetta satt best að segja vera enn eitt dæmi um að menn hrökkvi til í kjölfar hrunsins og rannsóknarskýrslunnar og ræði alls konar útfærslur á atriðum í stjórnsýslunni og haldi að þeir séu að færa mál til betri vegar þegar því er einmitt þveröfugt farið. Á sama tíma sitja mál sem öllu varða um hag heimilanna í landinu á hakanum.