139. löggjafarþing — 165. fundur,  16. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[20:27]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Hér eru greidd atkvæði um hvort hljóðrita beri alla ríkisstjórnarfundi og geyma hljóðritin í 30 ár áður en þau verði opinber. Í fyrsta lagi er ég ekki viss um að búið sé að hugsa eða skoða nægilega vel hvernig þetta kemur til með að vera í framkvæmd. Í öðru lagi lýsti ég því sjónarmiði í umræðum um málið að ég hefði áhyggjur af því að þetta breytti eðli ríkisstjórnarfunda þannig að viðkvæm mál yrðu hugsanlega færð út af ríkisstjórnarfundum í umræðu og efaðist þess vegna um að breytingartillagan mundi ná þeim tilgangi sínum að til yrðu góðar heimildir um starf ríkisstjórna. Á grundvelli þeirra efasemda get ég ekki stutt þessa breytingartillögu.

Ég verð raunar að geta þess líka að það er ákveðið umhugsunarefni að þarna er gert ráð fyrir 30 ára varðveislutíma þessara hljóðrita og vernd yfir þeim, ef svo má segja, en þeim tíma má auðvitað breyta með einfaldri lagabreytingu hér á þingi hvenær sem er.