139. löggjafarþing — 165. fundur,  16. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[20:30]
Horfa

Þráinn Bertelsson (Vg):

Frú forseti. Af öllum greinum ritlistar er færsla fundargerða einna mest skapandi, allt frá fundargerðinni stuttu: „Umræður“, sem er alveg sannleikanum samkvæmt og segir í einu orði frá því sem gerðist á fundi.

Ég greiddi áðan atkvæði með breytingartillögu frá Þór Saari um hvernig ætti að færa fundargerðir og hvað ætti í þeim að standa en þekkjandi mannlega náttúru, afl pennans og sköpunargáfu þeirra sem honum stýra þá treysti ég engu nema því að þessar heimildir verði geymdar, að sannleikurinn komi í ljós um síðir. 30 ár eru langur tími en oft þarf maður að bíða í lengri tíma en 30 ár eftir sannleikanum. Það sem skiptir máli er að sannleikurinn komi í ljós og menn viti það, bæði þeir sem sitja á fundunum og þeir sem færa fundargerðina. Því styð ég þessa tillögu.