139. löggjafarþing — 165. fundur,  16. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[20:56]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég vek athygli á því að sú breytingartillaga frá meiri hluta allsherjarnefndar sem við greiðum atkvæði um, gerir ráð fyrir því að unnt verði að ráða aðstoðarmennina sem heimilt er að bæta við, miðað við afgreiðslu okkar fyrr í dag, þegar við gildistöku laganna.

Í upphaflegu frumvarpi var gert ráð fyrir því að þessi fjölgun aðstoðarmanna og pólitískra starfsmanna í ráðuneytum biði fram yfir næstu kosningar. Það var rökstutt með tilliti til fjárhagsstöðu ríkisins og sparnaðarsjónarmiða. Nú hefur kannski eitthvað breyst varðandi fjármálin, a.m.k. hefur meiri hluti allsherjarnefndar ekki áhyggjur af fjárhagslega þættinum. Ég greiði atkvæði gegn þessu á sömu forsendum og breytingunni um fjölgun aðstoðarmanna og tel hana ótímabæra og óþarfa.