139. löggjafarþing — 165. fundur,  16. sept. 2011.

safnalög.

650. mál
[21:10]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við greiðum nú atkvæði um ný safnalög. Í nefndaráliti mínu lagðist ég gegn því að þetta mál yrði afgreitt á þessu þingi. Ég tel að við höfum ýmis tækifæri til að vinna það betur. Það var hugsað þannig, þegar það kom inn í þingið, að það yrði unnið samhliða frumvarpi um menningarminjar. Ég hef líka horft mjög mikið til skýrslu Ríkisendurskoðunar sem fjallaði um safnamál. Þar var bent á að svo sannarlega væru tækifæri til að auka skilvirkni og hagkvæmni í þessum málum. Ég hefði líka talið mjög brýnt að við hefðum unnið þetta samhliða þeim breytingum sem nú er verið að boða í fjárlaganefnd varðandi safnliðina.

Ég mun því sitja hjá við þessa atkvæðagreiðslu. Ég tel að við hefðum átt að gefa okkur betri tíma þannig að við hefðum getað búið til betri, skilvirkari og hagkvæmari ramma um þessa mikilvægu menningarstarfsemi.