139. löggjafarþing — 165. fundur,  16. sept. 2011.

sveitarstjórnarlög.

726. mál
[22:59]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég hygg að það hafi verið ákveðið gagnvart óskyldum aðilum. Samkvæmt 69. gr. er heimilt að ganga í einfalda ábyrgð til tryggingar á lánum stofnana og fyrirtækja sem sveitarfélagið á og rekur.

Ég vildi ganga enn lengra og spyrja hvort það hafi komist til tals í nefndinni og hvort það sé einhvers staðar rætt að borgararnir greiði atkvæði um útsvarsupphæðina, þ.e. að sveitarfélaginu sé skylt að koma með tvær fjárhagsáætlanir. Önnur gæti verið miðuð við 12% útsvar og hin 14% útsvar og borgararnir kysu á milli, þ.e. þeir kysu milli mikilla framkvæmda og 14% útsvars eða lítilla framkvæmd og 12% útsvars.

Þetta er sums staðar til, t.d. kjósa borgararnir í Sviss um útsvarið. Komst það til tals í þessari hugleiðingu um bága stöðu sveitarfélaga og aukið íbúalýðræði?

Sveitarfélögin hafa að mínu mati farið mjög glannalega í fjárfestingar, sérstaklega í einkarekstur, og það sést á stöðu þeirra margra hverra. Mér finnst að borgararnir eigi að koma að því, að íþróttahúsinu sé ekki bara flaggað fyrir kosningar og sundlauginni — og frambjóðendur segi: Kjósið mig, ég er svona duglegur. Síðan kemur í ljós að það á eftir að borga þetta allt saman og það eru kjósendurnir sjálfir sem eiga að gera það. Ég hefði talið að þeir ættu að hafa miklu meira um fjárfestingarnar að segja og hversu há útsvarsprósentan á að vera.