139. löggjafarþing — 165. fundur,  16. sept. 2011.

sveitarstjórnarlög.

726. mál
[23:03]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf):

Herra forseti. Ég mæli fyrir breytingartillögu við frumvarp það sem hér er til umfjöllunar um sveitarstjórnarlög sem flutt er af þeim sem hér stendur og hv. þm. Merði Árnasyni um lágmarksíbúafjölda í sveitarfélögum sem er ekki til staðar í téðu frumvarpi og sá sem hér stendur saknar. Lagt er til að á eftir 6. gr. komi ný grein ásamt fyrirsögn, svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Lágmarksíbúatala sveitarfélags er 1.500 íbúar.

Nú hefur íbúafjöldi sveitarfélags verið lægri en 1.500 í þrjú ár samfleytt og skal ráðuneytið þá eiga frumkvæði að því að sameina það nágrannasveitarfélagi. Einnig má þá skipta hinu fámenna sveitarfélagi milli nágrannasveitarfélaga.

Undantekningu frá þessu ákvæði skal gera ef sérstakar aðstæður hindra það að mati ráðuneytisins að íbúar hins fámenna sveitarfélags geti myndað félagslega heild með íbúum nágrannasveitarfélags.“

Sá sem hér stendur hefur verið talsmaður þess að auka vægi sveitarstjórna sem stjórnsýslustigs hér á landi og færa aukin verkefni til sveitarfélaganna frá ríkinu. Horfi ég þar til margvíslegra málaflokka, svo sem málefna fatlaðra sem nú þegar eru reyndar komin yfir til sveitarfélaganna, að mati flestra með ágætum árangri enda um nærþjónustu að ræða. Líta má til fleiri þátta, herra forseti, í þeim efnum, eins og málefna aldraðra sem eru á leiðinni yfir til sveitarfélaganna. Lít ég þá svo á að vegna samlegðaráhrifa sé mikilvægt að horfa þar líka til heilsugæslunnar. Einnig má nefna málefni framhaldsskólanna og fleiri þætti sem sá sem hér stendur telur að eigi heima í nærþjónustuumhverfinu sem sveitarfélögin sannarlega eru og að með því móti sé betur farið með peningana og þeim ráðstafað í betri takti við þá þjónustu sem þarf að vera fyrir hendi hverju sinni á hverjum stað.

Sameining sveitarfélaga hefur verið ofarlega á baugi í íslenskri þjóðmálaumræðu um langt árabil. Er það vel. Engu að síður hefur tekið býsna langan tíma að efla það mikilvæga stig stjórnsýslunnar sem sveitarfélögin eru og nægir þar að nefna að árið 1993 var efnt til viðamikillar kosningar um sameiningu sveitarfélaga sem tókst að mati þess sem hér stendur ekki nógu vel. Þetta er viðkvæmt mál heima í héraði að mati þeirra sem þar til þekkja og enda þótt byggðasamlög hafi komið til sögunnar á undanliðnum árum og hafi aukið samstarf sveitarfélaga til mikilla muna, sem er vel, hlýtur engu að síður að vera krafa íbúa í sveitarfélögunum að þau geti staðið vel undir þeirri þjónustu sem þar er boðið upp á. Því er þessi tillaga ekki síst lögð fram í ljósi þeirrar kröfu íbúanna að þeir geti gert þá meginkröfu til sveitarfélaganna að þau bjóði upp á trygga, góða og agaða þjónustu.

Margir sveitarstjórnarmenn hafa lagt það til að löggjafinn hlutist til um þessi málefni og leggi það einfaldlega fram á Alþingi að hlutast til um íbúafjölda hvers sveitarfélags. Því er ekki til að dreifa í því frumvarpi sem hér er til umfjöllunar og 50 manna íbúatalan í raun á brott numin. Ég tel að með þessum hætti sé hægt að svara kröfum margra sveitarstjórnarmanna sem vilja að löggjafinn hlutist til um þetta mál og efli þar með sveitarstjórnarstigið.

Með þessari tillögu er tekið tillit til staðhátta eins og fram kemur í 3. mgr. breytingartillögunnar. Staðhættir kunna að vera með þeim hætti að ekki sé hægt að grípa til þeirra samninga sem hér um ræðir og því hlýtur að koma til kasta ráðuneytisins hverju sinni hvort hægt er að gera undantekningar á þessu efni.

Að öðru leyti, herra forseti, tek ég undir orð hv. formanns nefndarinnar um þau mál sem hér hafa verið til umfjöllunar. Þetta er viðamikið mál. Um það hefur verið rík og góð sátt í mörgum meginatriðum, ef ekki öllum. Mjög hefur verið vandað til umfjöllunar málsins, víða leitað ráða og gott samráð haft við alla aðila, ekki síst Samband íslenskra sveitarfélaga. Þetta er mikilvægt mál, horfir til framfara og varðar ekki síst aukið aðhald með þessu sveitarstjórnarstigi sem lýtur að nærþjónustu. Það er því mjög nærri hverjum íbúa þessa lands og er vel að að því sé hlúð.