139. löggjafarþing — 165. fundur,  16. sept. 2011.

sveitarstjórnarlög.

726. mál
[23:13]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Það liggur við að það sé óþarfi fyrir mig að koma í stólinn eftir þessa þrumuræðu hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar því að megintilgangur minn var að mæla fyrir breytingartillögu minni um það efni sem hann ræddi.

Ég vil fyrst taka fram að bæði þessi tillaga og sú sem hv. þm. Sigmundur Ernir Rúnarsson flutti fyrir okkar hönd áðan eru ekki fluttar vegna þess að þær hafi lent í knöppum minni hluta í nefndinni heldur vegna þess að nefndin ákvað að flytja tillögur sínar nokkuð einhuga og þá passaði ekki að bera upp þessar tillögur. Því var ákveðið að flytja þær sér en það var ekki þannig að allir aðrir nefndarmenn lýstu yfir andstöðu við tillögurnar. Ég veit af stuðningi við þessa tillögu bæði í nefndinni og frá þingheimi að öðru leyti.

Í mjög stuttu máli er efni hennar að Reykvíkingar ráði sjálfir innan hæfilegs ramma sem í frumvarpinu er settur. Ef maður tekur 4. og 5. tölul. 1. mgr. 11. gr. saman er það frá 15, sem er núna tala borgarfulltrúa í Reykjavík, í 31. Það er eðlilegt að Alþingi veiti íbúum ákveðinn lágmarksrétt og tryggingu, einkum í fámennum sveitarfélögum, fyrir því að fulltrúar séu það margir að lýðræði sé tryggt sem og fjölræði og fjölbreytni. Þetta á miklu síður við í hinum stærri sveitarfélögum og þá síst í Reykjavík.

Það skal tekið fram í ljósi ræðu hv. þingmanns að með þessari tillögu er ekki tekin afstaða til þess hvort borgarfulltrúar í Reykjavík eigi að vera 15, 17, 23 eða 27. Vegna þess að lagt er til hámarkið 31 er að vísu komið í veg fyrir að borgarfulltrúar í Reykjavík verði 61 eins og lagt er til í annarri breytingartillögu og mér þykir ævintýraleg há tala. Einungis er lagt til að Reykvíkingar ráði þessu sjálfir innan þess ramma sem hér er tiltekinn, 15–31.

Í þessum tiltekna hreppi hafa verið deilur, menn hafa verið á ýmissi skoðun um það hvað hreppsnefndarmennirnir eigi að vera margir. Þeir hafa reyndar verið 15 frá aldaöðli, ég man ekki hvenær það hófst, 1908 hljómar í mér eitthvert ártal en kannski er það rangt. Þeim var síðan fjölgað í 23, ákveðið í þeim meiri hluta sem við tók árið 1978 að fjölga í 23 og það tók gildi 1982. Þá féll sá meiri hluti, m.a. vegna þessarar fjölgunar sem hann hafði ákveðið, en sá nýi sem við tók var 23 manna og ein af fyrstu ákvörðunum hans var að fækka sér aftur í 15. Sú tillaga virðist hafa notið stuðnings í hreppnum því að þessi meiri hluti var endurkjörinn, ekki bara næst heldur líka þarnæst og þarþarnæst. Hann féll svo með brauki og bramli í kosningunum þar á eftir en þá ekki vegna sérstakra deilna um fjölda hreppsnefndarmanna.

Þannig er þetta. Ég vænti stuðnings við breytingartillöguna, auðvitað einkum frá þingmönnum Reykvíkinga en líka landsbyggðarinnar og nærsveitarmanna og veit að ýmsir þeirra hafa í hyggju að styðja þetta. Það var talað um hvatir að baki tillögum og stuðningi og þetta er kannski ekki algjörlega af yndisleik og hlýju í garð Reykvíkinga og borgarfulltrúa þeirra vegna þess að sumir utanbæjarmenn vita að það kynni að verða nokkuð erfitt að taka þessa ákvörðun í borgarstjórn Reykjavíkur eða ímynda sér það, en telja að þann kaleik eigi hvergi að drekka nema í Ráðhúsinu við Tjörnina, og það er óeðlilegt að alþingismenn taki afstöðu fyrir borgarfulltrúana og verði misvinsælir á eftir.

Ég ætla að láta útrætt um þetta og bara segja að ég tel mig ekki geta rökstutt tillögu okkar um fjölda í sveitarfélögum betur í stuttu máli en 1. flutningsmaður, Sigmundur Ernir Rúnarsson, gerði um hvað þar er á ferðinni. Frumvarpið er fjölbreytt, auðvitað er þetta mikið mál og við hefðum þurft að hafa meiri tíma til umræðu um það en svona er þetta. Maður er öruggari með frumvarpið vegna þess að samstaða var mjög góð í nefndinni og mjög fín vinna í kringum málið. Ég segi það vegna þess að ég þekki þessi mál miklu miður en margir þeir sem í nefndinni starfa. Það var út af fyrir sig skóli fyrir mig að horfa á vana sveitarstjórnarmenn og þekkingarmenn um þessi málefni starfa þar saman. Ég er þó glaður yfir því að hafa fengið liðsinni þeirra við að koma vonandi á fót málstefnu í sveitarfélögum svipað og við samþykktum eftir 2. umr. um Stjórnarráðið og þakka fyrir stuðning við þá tillögu.