139. löggjafarþing — 165. fundur,  16. sept. 2011.

sveitarstjórnarlög.

726. mál
[23:19]
Horfa

Lúðvík Geirsson (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að fagna því að nýtt frumvarp til sveitarstjórnarlaga er komið í þann búning sem hér birtist og hefur verið lagt fram til 2. umr. Ég vil nota tækifærið og þakka sérstaklega samgöngunefnd og þeim sem þar hafa starfað fyrir þeirra ágæta starf í þessum efnum að vinna upp þetta ágæta frumvarp og ekki síður það samstarf sem hefur tekist og samstöðu bæði innan nefndarinnar og við þá hagsmunaaðila sem hér hafa komið að máli. Það er mjög mikilvægt einmitt á þeim tímamótum þegar sveitarfélögin eru að taka yfir sífellt stærri verkefni, nú síðast málefni fatlaðra við síðustu áramót sem eru 11 milljarða kr. viðbótarútgjaldaverkefni og þjónustuverkefni hjá sveitarfélögunum og önnur stór verkefni sem menn horfa til, hvort heldur er í öldrunarmálum eða heilsugæslu eða margvíslegri nærþjónustu, að ramminn í kringum stjórnsýslu sveitarfélaganna sé færður til þess nútíma sem hann þarf að vera og það sé gætt að því að lagaramminn fylgi þeirri þróun sem á sér stað og taki utan um þetta verkefni á víðari grunni en var fyrir í fyrri lögum þó að þau hafi um margt verið ágæt.

Það er líka athyglisvert að inn í þennan lagaramma núna er verið að færa margar breytingar sem hafa orðið til í sveitarfélögunum í þeirri þróun og gerjun sem hefur orðið víða í breyttri stjórnsýslu sveitarfélaganna jafnvel á síðasta áratug. Ákvæðið hér um íbúakosningar er eitthvað sem við vorum fyrst með í framkvæmd 2002 í lagaramma sveitarfélaganna og önnur ákvæði sem hafa verið að þróast varðandi aukna valddreifingu í sveitarstjórnunum sjálfum, eins og hið gamla bæjarráð eða byggðaráð sem var nokkurs konar póstkassi í stjórnsýslunni þar sem öllum málum var safnað saman og gerði það að verkum að jafnvel minni hluti kjörinnar sveitarstjórnar hafði öll ráð í sinni hendi og stór hluti sveitarstjórnarmanna var óvirkur í sveitarstjórnarstarfinu. Þessu hefur verið breytt með því að stokka upp stjórnsýsluna í sveitarfélögunum, gera hana ráðsetta og skapa jafnvægi og jafnsetta ábyrgð í hinum ýmsu ráðum hvort sem þau fjalla um félagsmál, skólamál eða framkvæmdamál jafnt sem almenna stjórnsýslu og fjármál.

Það eru nokkur atriði sem þarf að skoða betur fyrir lokaafgreiðslu til að þessi lagarammi verði enn fullkomnari og betri þó að hann sé eins og ég segi enn og aftur til mikilla bóta og framfara.

Eitt af því sem Samband íslenskra sveitarfélaga hefur lagt áherslu á í athugasemdum sínum er til að mynda að það komi fram með skýrari og táknrænni hætti í 2. gr. að það sé enginn vafi á því að ráðherra sveitarstjórnarmála, hæstv. innanríkisráðherra, hafi það hlutverk að standa vörð um hagsmuni og sjálfstjórn, verkefni og fjárhag sveitarfélaganna, og finnst að verið sé að veikja í raun og veru þetta ákvæði eins og það er orðað núna í frumvarpinu, að hlutverk hans sé að gæta að og virða sjálfstjórn. Bent hefur verið á að þarna séu hagsmunaárekstrar varðandi stöðu ráðherra gagnvart sveitarfélögunum, að hann geti ekki staðið með þessum hætti vörð um þetta. Ég er ekki sammála þeirri túlkun og ég veit að sveitarstjórnarmenn og stjórn Sambands sveitarfélaga er þeirrar skoðunar að menn vilji halda í það orðalag og þær meiningar sem menn hafa haft í þeim lögum sem eru í gildi.

Vikið var að þáttum eins og siðareglum í máli framsögumanns, hv. þm. Björns Vals Gíslasonar, og það er mjög mikilvægt að við tryggjum með lagasetningu að það sé tekið inn í alla stjórnsýslu sveitarfélaganna svo víðfeðm og öflug sem hún er. Ég tel eðlilegast að þetta séu samræmdar siðareglur sem gildi á landsvísu. Það eigi ekki að vera þannig að hvert og eitt byggðarlag setji sínar sérstöku siðareglur, við erum að starfa eftir sömu reglum, við erum að starfa að sömu verkefnum og sömu þjónustu og það sé mun eðlilegra að menn starfi þar með samræmdar siðareglur á sama hátt og menn hafa verið að undirbúa og leggja drög að samræmdum siðareglum fyrir stjórnsýsluna sem er á vegum hins opinbera, þ.e. ríkisins.

Ég nefndi áðan íbúakosningar og lýðræðismál og það er mjög veigamikill þáttur í þessum nýmælum í lögunum að verið er að festa í sessi rétt íbúa til þess að hafa virkari áhrif á þróun og stjórnun mála heima í héraði. Það er auðvitað verið að svara kalli tímans í þessum efnum. Almennar undirskriftasafnanir í gegnum tíðina hafa oft og tíðum skilað litlu nema smáumræðu um tíma og svo hefur kannski lítið verið með það gert og gengið jafnvel af hörku og ákveðni gegn þeim vilja sem þar hefur komið fram jafnvel þó að um stóran hluta íbúa sé að ræða sem hafa verið að koma sjónarmiðum sínum á framfæri.

Það eru auðvitað mjög breytt viðhorf í þessum efnum og eðlilegt að það sé tryggt í þessari lagasetningu, eins og gert er, að rétturinn sé bæði sveitarstjórnarinnar að geta tekið ákvörðun um að vísa ákveðnum málum beint í kosningu sem sveitarstjórnin er sammála um eða telur mikilvægt að fá álit íbúanna á og þeir hafi þar sitt að segja og svo aftur hinn þátturinn, þ.e. réttur íbúanna til að kalla eftir kosningum. Það sem ég veit að hefur verið skilið eftir í umræðunni og er til skoðunar núna milli 2. og 3. umr. er í raun sá rammi sem setja þarf í kringum slíkar reglur. Ég get talað af reynslu, hafandi gengið í gegnum þetta verkefni í mínum heimabæ, Hafnarfirði, að það er mjög mikilvægt að það sé enginn efi uppi eða einhver óljós atriði og spurningar sem menn geta ekki svarað skýrt þegar kemur að framkvæmd slíkra mála, bæði í aðdragandanum að því þegar íbúar sækja sinn rétt með undirskriftasöfnun, hvernig að þeim skal staðið og þær fram lagðar, hvaða tímamörk eru gefin til að undirbúa það og það sé tryggt að það fari allt fram með réttum og eðlilegum hætti. Og svo aftur hvernig málið heldur áfram gagnvart útfærslu í tíma og formi.

En það þarf líka að horfa til þess hvort réttur sem þessi, vegna þess að hann er afar mikilvægur og skiptir máli, eigi að vera almennur og víðtækur til allra hluta, eins og sumir hafa talað fyrir, eða hvort það sé eðlilegt að ákveðnir þættir þar séu settir til hliðar og gildi ekki um í þessum efnum. Það liggja til að mynda fyrir alveg skýr sjónarmið frá sveitarstjórnum og forustu sveitarstjórna í landinu sem hefur tekið þessum tillögum með opnum huga. Stjórn Sambands sveitarfélaga ályktaði um það á síðasta fundi sínum fyrir réttri viku síðan að það sé eðlilegt að í slíkum kosningum séu undanskilin þau mál sem snúa annars vegar að fjárhagslegum þáttum varðandi tekjuöflun sveitarfélaganna, ekki útgjaldaþáttinn eins og var rætt í andsvörum fyrr í þessari umræðu heldur tekjuþáttinn, og hins vegar þau mál sem lúta að ráðningu einstakra embættismanna eða starfsmanna sveitarfélaga. Ég held að þetta séu atriði sem þurfi að hafa í huga núna þegar menn ganga frá lokaatriðum í þessu frumvarpi og menn horfi auðvitað til þeirrar reynslu sem hefur fengist af slíkum málum í nágrannalöndum okkar.

Annað atriði sem ég vildi nefna og horfi til eru þau nýmæli sem lúta að fjárhagslegum reglum í sveitarstjórnarlögum. Þar er verið að setja mjög skýr og ströng fyrirmæli. Það er til bóta og það er mjög mikilvægt að það sé gert í fullri sátt við sveitarfélögin hvernig það er hugsað og hvernig það er útfært. Það er alveg ljóst að við þurfum ákveðinn aðlögunartíma í þeim efnum. Staða sveitarfélaganna er auðvitað gríðarlega þung og erfið eftir hrunið. Þar eru menn að horfast í augu við stórfelldar skuldir sem hafa safnast upp fyrst og fremst vegna gengishruns. Mönnum er mjög títt að tala um stórframkvæmdir og skuldasöfnun af þeim sökum en staðreyndin er sú að stærsti hluti þeirrar skuldasöfnunar sem sveitarfélögin horfast í augu við er vegna þess að þau lentu í hruninu líkt og ríkissjóður, bankarnir, fyrirtækin og heimilin í landinu og þau eru að takast á við það verkefni að endurfjármagna sinn rekstur. Bankakerfið er búið að ganga í gegnum endurfjármögnun, tryggingafélögin, sparisjóðirnir, stærstu fyrirtæki landsins jafnt sem þau smæstu, en sveitarfélögin eiga hins vegar eftir að fara í gegnum sína endurfjármögnun. Það verður að horfa til þess að til að ná 150% skuldaviðmiði, sem er í eðli sínu raunhæft og á að vera hægt að horfa til, þarf auðvitað að gefa þann tíma sem er eðlilegur til að menn nái þeim markmiðum, ef við horfum á þetta raunsætt. Það var gengið út frá því í upphaflegum umræðum um þessa reglusetningu að þarna væri tíu ára viðmið. Það eru sex ár í þessum ramma núna og ég tel mikilvægt að menn fari að óskum sveitarfélaganna og setji á þennan tíu ára tíma.

Það verður líka að horfa til þess, ef svo fer fram sem horfir og er auðvitað mín ósk og væntanlega þingsins að við náum að afgreiða þetta frumvarp á þessu þingi, að það þarf að gefa ákveðið svigrúm og horfa til þeirra ákvæða sem lúta að bráðabirgðaákvæðum varðandi þann tíma sem þarf að vera til stefnu til að fara í framkvæmd með þá hluti sem lúta að fjárhagslegu þáttunum. Það verður að vera ákveðið svigrúm og aðlögunartími til að geta komið fram með þær áætlanir og þau markmið sem sveitarfélögunum eru sett í þeim efnum. Ég treysti því og er fullviss um að menn munu horfa til þeirra þátta í þeirri yfirferð sem menn hafa tækifæri til að vinna nánar í þessu máli á næstu klukkutímum og sólarhringum.

Hér liggja fyrir breytingartillögur um lágmarksíbúatölu sem hv. þm. Sigmundur Ernir Rúnarsson kynnti fyrr í þessari umræðu. Ég dreg enga dul á það að ég er þeirrar skoðunar að sú aðferðafræði að ætla að ná fram sameiningu og fækkun sveitarfélaga með því að setja fram slíkar lágmarksviðmiðunartölur er ekki sú leið sem mun skila okkur árangri við þær aðstæður sem við búum við í dag. Það er auðvitað búið að margreyna ýmsar leiðir með sameiningarferlum og það hefur í raun gengið betur en margir hafa viljað trúa að ná fram fækkun sveitarfélaga og sameiningu á umliðnum árum og áratugum. Sveitarfélögin eru í dag rétt liðlega 80 talsins, voru vel á annað hundrað talsins fyrir ekki nema réttum áratug.

Það sem blasir hins vegar við núna og hefur verið stefnumið sveitarfélaganna sjálfra er að með yfirfærslu nýrra verkefna eins og málefna fatlaðra, öldrunarmála, heilbrigðismála og fleiri verkefna sem munu koma yfir til sveitarfélaganna í auknum mæli á næstu missirum og árum, er það sjálfgefið að sveitarfélögin munu ekki geta haldið utan um þá málaflokka nema þau sameinist um þau verkefni.

Varðandi málefni fatlaðra er horft til þess að þjónustusvæðin séu að lágmarki 8 þúsund íbúar með einstaka undantekningum vegna landfræðilegra aðstæðna. Það er í raun sú viðmiðun sem menn horfa til. Það liggur líka fyrir að á borðinu eru tillögur um uppstokkun og breytingar á regluverki Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga og með því að hrinda þeim tillögum í framkvæmd er sjálfgefið að minnstu sveitarfélögin munu ekki geta haldið stöðu sinni með þeim hætti sem þau hafa haft hingað til. Þau munu annars vegar þurfa að ganga til sameiningar eða samvinnu við nærliggjandi sveitarfélög. Ég tel það heilbrigt og skynsamlegt að menn fylgi þessari stefnu og láti þetta leiða af sjálfu sér í þeim verkefnum sem sveitarfélögin eru að taka yfir núna á næstu mánuðum, missirum og árum.

Ég ætla að láta þessu lokið, virðulegi forseti. Ég fagna þessum lagaramma. Hér er verið að fara fram með mjög góðar útfærslur í góðri sátt, en ég endurtek að lagarammi í kringum sveitarstjórnir þarf að vera í sívirkri skoðun og endurnýjun vegna þess að störf og verkefni sveitarfélaganna taka sífelldum breytingum. Hér er verið að ná utan um málin með góðri sýn til næstu framtíðar og ég er fullviss um að sá lagarammi sem hér liggur fyrir með þeim smávægilegu breytingum sem þarf að gera til að fullkomna hann enn frekar mun verða góður vegvísir fyrir sveitarfélögin inn í komandi framtíð.