139. löggjafarþing — 165. fundur,  17. sept. 2011.

sveitarstjórnarlög.

726. mál
[00:04]
Horfa

Frsm. samgn. (Björn Valur Gíslason) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir umfjöllun hans um frumvarpið, svo lítið sem hann kannski fjallaði um það, en vil fyrst og fremst biðjast undan því að ráðherra komi hingað upp í ræðustól með slíka ofanígjöf í garð alþingismanna og nefnda sem hér starfa. Nefndin hefur starfað ágætlega að þessu máli alla tíð og verið að ræða milli umræðna, bæði 1. og 2. Eftir að nefndin sendi málið frá sér til 2. umr. sem við erum nú í halda menn auðvitað áfram að þróa þær hugmyndir sem þeir telja að þurfi að betrumbæta í frumvarpinu. Við áskiljum okkur allan rétt til þess sem ég efast um að ráðherra sé að reyna að koma í veg fyrir.

Það stendur ekki til að takmarka rétt íbúanna með nokkrum hætti, ég get fullvissað ráðherra um það. Frumvarpið felur í sér aukinn rétt íbúa til að hafa áhrif á gang sveitarfélaga. Ég held að það sé algerlega óumdeilt að samanborið við gildandi lög um sveitarstjórnir er þetta nýja frumvarp gríðarlega mikil bót hvað það varðar að auka lýðræðislegan rétt og aðkomu íbúa að stjórn sveitarfélaga. En það getur hins vegar verið áherslumunur milli þingmanna, samgöngunefndar og ráðuneytis o.s.frv. um hvernig útfærsla á því hefur farið fram.

Ég nefndi það í ræðu minni í kvöld að við mundum endurskoða ákveðna hluti eða taka til umræðu ákveðna hluti á nefndarfundi í fyrramálið og m.a. þau atriði sem hæstv. ráðherra nefndi í ræðu sinni áðan. Það verður þá bara að koma í ljós hvort þingið tekur undir tillögur okkar eða ekki ef það verða einhverjar tillögur. Nefndin á eftir að fjalla um málið.