139. löggjafarþing — 165. fundur,  17. sept. 2011.

sveitarstjórnarlög.

726. mál
[00:21]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nú eru hlutirnir að snúast við. Hæstv. innanríkisráðherra bendir mér á að það sé ekki skynsamlegt fyrir mig að tala fyrir of mikilli forræðishyggju. Það er kannski nýtt út frá pólitískum vinkli, en að öllu gamni slepptu heyrist mér hæstv. innanríkisráðherra meina að hann sé ekki að leggja til að það sé kosið um fjárhagsáætlanir eða útsvar heldur finnist honum ekki rétt að setja það inn í landslög. Þá velti ég upp spurningunni: Af hverju erum við með lágmarksútsvarsprósentu í landslögum? Mætti það ekki vera eitthvað sem menn gætu þá ráðið og þessi ríku sveitarfélög gætu haft þau lægri? Af hverju erum við með það? Það eru margir vinklar á þessu. Ég átta mig hins vegar á því í þessum skoðanaskiptum að kannski er ekki svo langt á milli okkar í þessum hlutum. Mér finnst hæstv. innanríkisráðherra taka þetta fullóstinnt upp að því leyti til að ég tel mikilvægt að menn hafi skýr markmið og skýra stefnu um það í hvað menn ætla að virkja íbúalýðræðið. Við erum öll sammála um að virkja það.

Ég heyri að við hæstv. innanríkisráðherra erum sammála um að þróa frekar áfram ákveðnar hugmyndir um það þegar sveitarstjórnarmenn sem oft og tíðum eru afskaplega fáir, kannski fjórir sem stýra 2–3 þús. manna sveitarfélagi, meiri hlutinn þá, þurfa að leggja undir íbúana hvort eigi að fara í mjög stórar fjárfestingar þannig að allir geri sér grein fyrir hvað það þýðir fyrir íbúana. Það eru hugsanlega hærri álögur, það þýðir líka að ekki hægt sé að fara í önnur verk. Ég tel líka mikilvægt að það sé gert.

Svo vil ég benda á að það eru endurskoðunarákvæði í lögunum um það með hvaða hætti þetta hefur reynst eftir þrjú ár. Það er gríðarlega mikilvægt. Væri ekki nær fyrir okkur að þróa þetta áfram í þá veru? Ef upp koma annmarkar og stórar kröfur um að þetta muni þróast (Forseti hringir.) í þá veru sem hæstv. innanríkisráðherra hefur áhyggjur af væri væntanlega hægt að endurskoða það þegar lögin verða tekin upp eftir þrjú ár.